Norðurlandaráð: Innleiðing hafnargjalda í samræmi við umhverfisáhrif

10.04.18 | Fréttir
Trålare i hamnen i Reykjavik
Photographer
Helgi Thorsteinsson/norden.org
Ef greiða þarf hærri hafnargjöld af skipum sem menga mikið en af skipum sem eru umhverfisvænni fá útgerðirnar afdráttarlausa hvatningu til þess að velja umhverfisvæna farkosti. Þetta hefur í för með sér mikinn ávinning fyrir lífríki hafsins og loftgæði. Þetta er skoðun Norðurlandaráðs sem hrindir af stað norrænu samstarfi um að umhverfistengja hafnargjöld.

Ferlar sem varða alþjóðlega sáttmála og reglur um siglingar eru hægfara en Norðurlöndin eru fremur stórar siglingaþjóðir í alþjóðlegu samhengi og eiga þess kost að hraða þróuninni með því að vera fyrirmynd að mati sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs sem lagði fram tillöguna á þriðjudaginn á sameinuðum þingfundi á þemaþingi ráðsins um hafið sem haldið var á Akureyri.

„Hægt er að gera gjaldheimtukerfið skilvirkara með því að þróa skilgreiningar fyrir það á norrænum vettvangi - svolítið eins og norræna umhverfismerkið Svanurinn en fyrir skip. Þannig setja Norðurlöndin markið hátt, einnig fyrir önnur lönd. „Markmiðið er að fá útgerðarfélögin til þess að velja lausnir sem eru hagstæðar fyrir umhverfið,“ segir Suzanne Svensson (S), Svíþjóð. 

„Norræn útgerðarfélög eru að endurnýja flotann sinn. Það er dýrara að smíða umhverfisvæn skip en með hvatningu gegnum stefnumótun getum við haft áhrif gegnum umhverfistengd gjöld,“ segir Suzanne Svensson. 

Greiða þarf úrvinnslugjald af öllum skipum.

Frumkvæðið að þingmannatillögu um að draga úr losun í siglingum á Norðurlöndum var flutt af flokkahópi vinstri grænna. Í öðrum tilmælum í tillögunni eru ríkisstjórnir Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hvattar til þess að taka inn umhverfisþáttinn þegar tilskipun Evrópusambandsins um móttökuaðstöðu í höfnum fyrir afhendingu úrgangs frá skipum verður endurskoðuð.

Kolbeinn Óttarsson Proppé (VG), Íslandi, fulltrúi flokkahóps vinstri grænna í sjálfbærninefndinni telur mikilvægt að tryggja að væntanleg tilskipun feli í sér ákvæði um að öll skip sem koma til hafnar innan ESB greiði fyrir losun úrgangs og skólps. 

„Meðan aðeins þau skip sem nýta losunarþjónustu greiða gjöld munu alltaf vera til staðar skip sem losa úrgang í hafið,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé. 

Tillagan og öll tilmælin sem henni fylgja voru samþykkt samhljóða á þemaþinginu.