Norðurlandaráð vill að reynt verði að koma á skilagjaldskerfi fyrir plastpoka

04.04.17 | Fréttir
Á þriðjudag samþykkti Norðurlandaráð tilmæli til norrænu ríkisstjórnanna þess efnis að innleiða allsherjarbann við örplasti í snyrtivörum. Næst á dagskrá í plastmálunum er tillaga þar sem lögð eru drög að því að koma á skilagjaldi fyrir plastpoka og plastúrgang.

Í þingmannatillögu um að draga úr plastúrgangi á Norðurlöndum, sem flokkahópur miðjumanna í Norðurlandaráði átti frumkvæði að, eru litlir og þunnir plastpokar undir 50 míkronum að þykkt skilgreindir sem mengunarvaldur.

Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs leggur til að Norræna ráðherranefndin, í samstarfi við eitt eða fleiri norrænt land og stofnanir sem fara með skilagjaldsmál, þrói staðbundnar tilraunir á því hvort nýta megi skilagjald eða önnur fjárhagsleg úrræði til að stuðla að aukinni söfnun á plastúrgangi, meðal annars plastpokum.

„Það gleður mig að sjálfbærninefndin skuli styðja þá tillögu að við á Norðurlöndum ráðumst sameiginlega í það að greina og takast á við vandann sem felst í þunnu plasti og plastpokum sem enda í hafinu og náttúrunni. Tillagan um endurvinnslu plastúrgangs er skref í rétta átt,“ segir Staffan Danielsson (C, Svíþjóð) úr flokkahópi miðjumanna.

Christian Poll (A, Danmörku) úr flokkahópi vinstri sósíalista og grænna í Norðurlandaráði segir það áhugaverða við skilagjaldskerfi vera að þau geti tryggt hreina endurvinnslu og hátt endurvinnslustig.

„Slík kerfi stuðla að því að stórum hluta efnisins sé skilað til endurvinnslu. Gæði plastsins eru vituð og efnið afar einsleitt. Endurvinnslu plastúrgangs frá heimilum fylgja hins vegar ýmis óhreinindi og þá er aðeins unnt að endurvinna plastið í lakari gæðum,“ segir Poll.

ESB hvetur aðildarlönd sín til að draga úr notkun léttra plastpoka, en fer ekki nánar út í hvernig það skuli gert. Sjálfbærninefndin leggur því til að gerð verði norræn kortlagning þar sem greint verði hvaða lands- og staðbundnu verkefni hafa skilað mestum árangri í því að draga úr plastpokanotkun. Einnig vill nefndin láta kortleggja reynslu landa sem hafa innleitt mismunandi bönn við léttum plastpokum.

Norðurlandaráð heldur þemaþing sitt 3.–4. apríl í Stokkhólmi. Fylgist með umræðum á Twitter: #nrpol og #nrsession