Norðurlandaráð vill auka samstarf um varnir og hættustjórnun

28.11.17 | Fréttir
President Michael Tetzschner
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Ríki Norðurlanda verða að efla varnarmálasamstarf sín á milli og kanna möguleika á að dýpka samstarfið á sviði heildarvarna, viðbúnaðar og hættustjórnunar. Þetta er álit flokkahóps hægrimanna í Norðurlandaráði og tekur forsætisnefnd ráðsins í sama streng.

Forsætisnefndin samþykkti tillögu flokkahópsins á fundi í Kaupmannahöfn 28. nóvember s.l. Samkvæmt tillögunni skulu löndin kanna hvar þau geta nýtt almannavarnir hvert annars og hvaða svið skuli lögð áhersla á. Þá skuli þau athuga hvernig þróa má samstarf varnarmálayfirvalda landanna annars vegar og samstarf lögregluyfirvalda hins vegar.

Flokkahópur hægri manna vill greina hvernig alvarlegt hættuástand getur haft áhrif á matvælaframboð á Norðurlöndum og ennfremur auka viðbúnað og efla vitund almennings um hugsanlegar hættur.

Aukin óvissa

„Óvissa hefur aukist í heiminum á undanförnum árum, einnig á svæðum sem liggja okkur nær. Áskoranir sem blasa við okkur umhverfis Eystrasaltið og á norðurslóðum kalla á sameiginleg úrræði. Því er mikilvægt að efla samstarf Norðurlanda á sviði varnarmála og kanna hvernig hægt er að dýpka samvinnu um heildarvarnir, viðbúnað og hættustjórnun,“ segir Michael Tetzschner, varaformaður flokkahóps hægrimanna.

Hugmyndin er sú að núverandi varnarmálasamstarf landanna á vettvangi NORDEFCO geti orðið fyrirmynd samstarfs um almanna- og heildarvarnir.

Áskoranir sem blasa við okkur umhverfis Eystrasaltið og á norðurslóðum kalla á sameiginleg úrræði. Því er mikilvægt að efla samstarf Norðurlanda á sviði varnarmála og kanna hvernig hægt er að dýpka samstarfið um heildarvarnir, viðbúnað og hættustjórnun.

Í tillögunni segir að stríðsrekstur nútímans kalli á að samfélögin séu afar vel í stakk búin til að bregðast við hættuástandi. Nútímaógnir felast ekki eingöngu í hernaðarmætti heldur geta þær einnig falist í netárásum, sálfræðihernaði, efnahagsþvingunum og njósnum.

Varnarmálasamstarf í forgangi

„Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á að samstarf á sviði varnarmála verði dýpkað enn frekar. Niðurstöður nýlegrar skoðanakönnunar meðal norræns almennings sýna að Norðurlandabúar telja varnar- og öryggismál vera mikilvægustu samstarfssviðin,“ segir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs.

Tillagan var kynnt á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki um mánaðamótin október–nóvember. Fyrsta afgreiðsla tillögunnar fór fram á fundi forsætisnefndar í Kaupmannahöfn en hún verður send áfram til afgreiðslu á þemaþinginu sem haldið verður í apríl.