Document Actions

Norðurlönd eru friðsöm fyrirmynd

Norðurlönd hafa bæði forsendur og tækifæri til að verða umheiminum fyrirmynd hvað snertir sáttamiðlun. Þetta er álit forsætisnefndar Norðurlandaráðs, sem fundaði á Álandseyjum þann 27. júní. Einkum bendir forsætisnefndin á stöðu Álandseyja, Færeyja og Grænlands á Norðurlöndum sem innblástur og góð dæmi um friðsamlega lausn deilumála.

27.06.2017

„Ástandið í heiminum er óöruggara og ótryggara en það hefur verið lengi,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg. „Þess vegna er þetta málefni okkur mikilvægt.“ 

Undanfarið ár hefur Norrænaráðherranefndin pantað ýmsar víðtækar greinargerðir, svonefndar úttektir, á tilteknum fagsviðum. Greinargerðirnar hafa verið á sviðum öryggis-, heilbrigðis- og orkumála og nú er unnið að greinargerð á sviði samstarfsins í umhverfismálum. 

„Okkur í Norðurlandaráði hafa þótt þessar greinargerðir mikilvæg upphafsinnlegg í umræðu, og leggjum nú til að samsvarandi úttekt verði gerð á tækifærum í norrænu samstarfi til að skapa frið á átakasvæðum heimsins,“ segir Lundberg.

Í tillögu forsætisnefndar er einnig talað um að koma á fót sameiginlegu háskólanámi á framhaldsstigi á sviði friðarviðræðna, og þar er einnig greinargerð um möguleikana á því að koma á fót skjalasafni um sáttamiðlun í einu Norðurlandanna. 

Forsætisnefndin leggur einnig til að sáttamiðlun og friðarviðræður verði gerðar að sérstöku áherslusviði í sameiginlegu átaki norrænu forsætisráðherranna um norrænar lausnir við hnattrænum áskorunum.

Tillaga forsætisnefndarinnar verður tekin til endanlegrar afgreiðslu á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í nóvember.