Norðurlönd kalla eftir jafnrétti á vinnumarkaði

06.03.17 | Fréttir
Nordic Equality
Norrænu jafnréttisráðherrarnir fimm bjóða til umræðu á opnunardegi þings Kvennanefndar SÞ, mánudaginn 13. mars í New York. Norðurlönd taka áskoruninni um að stíga næsta skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði.

Að viku liðinni halda mörg þúsund fulltrúar ríkisstjórna, sérfræðingar og fulltrúar félagasamtaka frá öllum heimshornum til New York, þar sem fram fer þing Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, CSW61.

Meginþema þingsins í ár er „Women’s economic empowerment in the changing world of work“. Norrænu löndin hafa verið frumkvöðlar á því sviði og reynsla þeirra hefur vakið mikla athygli á heimsvísu.

Á Norðurlöndum eru fleiri konur á vinnumarkaði og fleiri karlar sem taka fæðingarorlof en á nokkru öðru svæði í heiminum.

Norðurlönd ekki fullkomin

Í umræðum í húsi Sameinuðu þjóðanna í New York, sem bandaríska blaðakonan Brigid Schulte stýrir, munu norrænu ráðherrarnir ræða hvernig löndin geta stigið næstu skref í átt að auknu jafnrétti. Norðurlönd eru nefnilega ekki fullkomin. 

„Við þurfum að brjóta upp mynstrið í hefðbundnu námsvali stúlkna og drengja. Við þurfum fleiri konur í stjórnunarstöður og ákvarðanatöku, og við þurfum að auka hlutfall kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði,“ segir Solveig Horne, jafnréttisráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál 2017.

Nýrra verkfæra er þörf

Norrænu ráðherraumræðurnar verða settar af sérfræðingunum dr. Mari Teigen frá Ósló og ph.d. Lynn Roseberry frá Kaupmannahöfn, sem munu reifa þau jafnréttisvandamál sem löndin hafa fundið lausnir við með sígildum norrænum umbótum á borð við fæðingarorlof, nútímalegum úrræðum í umönnun barna og aldraða, og skattlagningu einstaklinga – og einnig þau vandamál sem ekki hefur tekist að leysa með umbótum.

„Þau verkfæri sem hafa nýst til að auka hlutfall kvenna á vinnumarkaði munu ekki duga til að ná næsta stigi – kynjasamþættingu og auknu launajafnrétti á vinnumarkaði,“ segir Lynn Roseberry.

Nýr jafnréttisráðherra Íslendinga, Þorsteinn Víglundsson, er á meðal þátttakenda í ráðherraumræðunum í New York. Hann vill innleiða skyldu til jafnlaunavottunar á öllum íslenskum vinnustöðum með 25 starfsmenn eða fleiri.

Karen Ellemann, jafnréttisráðherra og norrænn samstarfsráðherra í Danmörku, leggur áherslu á að Norðurlönd beiti sér á þingi Kvennanefndarinnar.

„Valdefling kvenna, gott aðgengi þeirra að vinnumarkaði og framlag til hans, skiptir sköpum fyrir okkur öll. Norrænu löndin verða að taka forystu á fundi Kvennanefndarinnar og sjá til þess að framfarir verði í málaflokknum,“ segir hún.    

Komið í hús SÞ eða hlýðið á umræðurnar á netinu!

Komið og fylgist með umræðum ráðherranna í húsi SÞ í New York eða gegnum netið. Umræðurnar fara fram í Conference Room nr. 7, mánudaginn 13. mars kl 13:15–14:45 að staðartíma.

Bókið viðtal:

Tengiliður finnska ráðherrans Pirkko Mattila er Tiina Ullvén Putkonen: +358 5056 42917
Tengiliður sænska ráðherrans Åsa Regnér er Joanna Abrahamsson: + 46 72 543 84 89
Tengiliður danska ráðherrans Karen Ellemann er Rikke Lyngdal: +45 61 97 90 40
Tengiliður norska ráðherrans Solveig Horne er Maria Brit Espinoza: +47 915 59 67

Tengiliður íslenska ráðherrans Þorsteins Víglundssonar er Karl Pétur Jónsson: +354 664 0000

Fylgist með okkur á Twitter: #NordicEquality