Norðurlönd þurfa á Evrópu að halda og Evrópa á Norðurlöndum

30.03.17 | Fréttir
„Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir leggja áherslu á að félags- og heilbrigðismál í löndum okkar verði að skoða í samhengi við þróun mála annars staðar í Evrópu og um allan heim,“ er einróma niðurstaða norræns ráðherrafundar í Akershus-virki í Noregi þann 30. mars.

Ráðherrarnir eru sammála um að Norðurlönd þurfi á sterkri Evrópu að halda og Evrópa á sterkum Norðurlöndum. Þó að ESB-sáttmálinn kveði á um að félags- og heilbrigðismál séu innanríkismál hverrar þjóðar, geti norræn dæmi og lausnir verið öðrum Evrópuríkjum innblástur.

Í ESB- og EES-samstarfi tengjast sameiginlegir hagsmunir okkar þróun hins innri markaðar og félagslegri velmegun í Evrópu. Tillagan um „félagslega stoð“ inniheldur grunnþætti er varða atvinnu-, heilbrigðis- og félagsmál. Samstarf, með tilhlýðilegri virðingu fyrir fullveldi þjóðanna, getur stuðlað að því að beina kastljósinu að viðfangsefnum sem flest ríkin eiga sameiginleg, svo sem því að berjast gegn félagslegri útskúfun og tryggja öllum jöfn tækifæri og möguleika á vinnumarkaði.

Til að tryggja að Norðurlönd verði áfram á meðal samþættustu og samkeppnishæfustu svæða Evrópu, þar sem hreyfanleiki er mikill og samstarf öflugt, verðum við að fjárfesta í skilvirkum og nauðsynlegum félagslegum úrræðum til að varðveita og þróa norrænu velferðarsamfélögin. Þetta er sérlega mikilvægt nú, á tímum sem kalla á umskipti í samfélögum Norðurlanda, sögðu ráðherrarnir að lokum.

Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir vilja einkum eiga í samstarfi um:

  • Úttekt á norrænu samstarfi á sviði félagsmála

Í dag báðu ráðherrarnir framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að taka frumkvæði að úttekt á norrænu samstarfi á sviði félagsmála, til að greina viðfangsefni og svið þar sem er að finna aukið notagildi og tækifæri til að þróa samstarf um norrænar lausnir enn frekar. Ráðherrafundurinn í Akershus-virki biður því Svía, sem gegna formennsku í norrænu samstarfi á næsta ári, að fylgja eftir skýrslunni um úttektina á sviði félagsmála á fundi félags- og heilbrigðismálaráðherranna á árinu 2018.

  • Endurskoðun á Arjeplog-samningnum

Ráðherrarnir hafa ákveðið að samþykkja nýja endurskoðun á Arjeplog-samningnum, sem felur í sér að ný ákvæði um skipti á eftirlitsupplýsingum verði tekin inn í samninginn í því skyni að efla samstarf um eftirlit með löggiltu fagfólki í heilbrigðisstétt, með öryggi sjúklinga fyrir augum. Þess er vænst að löndin undirriti nýjan og endurskoðaðan samning á þessu ári.

  • Samstarf um verðlag á lyfjum

Lyfjakostnaður hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum. Verðlag á lyfjum er til umræðu á ýmsum vettvangi; innan Norrænu ráðherranefndarinnar, ESB, hjá Efnahags- og framfarastofnuninni og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Norrænu ráðherrarnir hafa samþykkt að efla samstarf sitt enn frekar og setja á laggirnar vettvang til að skiptast á upplýsingum og reynslu og til að ræða stefnu landanna í málefnum tengdum lyfjum.

  • Norrænt rannsóknasamstarf á sviði heilbrigðismála

Ráðherrarnir lýstu áhuga á norska formennskuverkefninu „Nordisk forskningssamarbeid for bedre helse 2017-2019“, sem snýst um norrænt rannsóknasamstarf um bætta heilsu og sem þeir telja afar mikilvægt. Helsta markmiðið með verkefninu er að samstarf um þau heilsufarstengdu gögn sem til eru á Norðurlöndum, og um klínískar rannsóknir, verði einfaldara og hagkvæmara fyrir rannsakendur í löndunum. Þetta á að stuðla að því að við uppgötvum fyrr orsakir sjúkdóma og þróum einstaklingsmiðaðri fyrirbyggjandi aðgerðir, greiningu og meðferðir í heilbrigðisþjónustu. Það hefði í för með sér mikinn rannsóknatengdan ávinning sem kæmi sjúklingunum til góða. Einnig getur verkefnið lagt mikilvægan grunn að bættri samkeppnisstöðu með nýsköpun, einkaleyfum og þróun í atvinnulífinu.