Norðurlönd verði leiðandi á heimsvísu á sviði 5G-tækni

20.09.17 | Fréttir
Nordisk Råd septembermøde 2017
Photographer
norden.org
Stafræn tækniþróun var efst á dagskránni á fundi norrænna þingmanna í Reykjavík. Norðurlandaráð vill að allir norrænir borgarar hafi aðgang að 5G-farsímaneti og væntir þess að samstarf norrænu ríkisstjórnanna um velferðartækni, æðri menntun og rannsóknir verði eflt.

Þeir stjórnmálamenn sem voru saman komnir til septemberfundar Norðurlandaráðs í Reykjavík báru miklar væntingar til nýstofnaðrar ráðherranefndar um stafræna þróun á Norðurlöndum. Norðurlandaráð vill að allir íbúar Norðurlanda hafi aðgang að skilvirkum gagnaflutningum, óháð búsetu.

Norðurlönd verði leiðandi á heimsvísu á sviði 5G-tækni

Það að Norðurlönd verði leiðandi á heimsvísu á sviði 5G-tækni er forsenda þess að ná markmiðinu um Norðurlönd sem samþættasta svæði í heimi. Þingmennirnir vænta þess að blásið verði til samnorræns átaks um innviði gagnaflutninga og að mótað verði líkan fyrir samstarf einkaaðila og opinberra aðila þvert á landamæri.

„Við á Norðurlöndum ættum að stefna að sameiginlegum markmiðum í uppbyggingu stafrænna innviða líkt og við eigum í samstarfi um sameiginlegt raforkudreifikerfi. Norrænu ríkisstjórnirnar verða að axla ábyrgð á því að allir hafi aðgang að interneti, óháð búsetu, og beita sér fyrir því að finna fjármagn til skjótrar uppbyggingar gagnaflutninga á jaðarsvæðum,“ segir Pyry Niemi, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sérstök ráðherranefnd um stafræna tækniþróun

Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa samþykkt að koma á fót tímabundinni sértækri ráðherranefnd, MR-Digital, fyrir tímabilið 2018–2020. Verkefni nefndarinnar verður að hafa umsjón með og samhæfa aðgerðir á sviði samstarfsins um stafræna þróun.

Ráðherranefndinni var komið á fót með vísan til ráðherrayfirlýsingar sem undirrituð var í tengslum við ráðstefnu ráðherra frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum, Digital North, sem fram fór í Ósló í maí síðastliðnum. 

Viðeigandi nefndir Norðurlandaráðs hafa lagt fram sameiginlega tillögu sem ætlað er að tilgreina efni yfirlýsingarinnar betur og styðja við það.

Samþættasta svæði í heimi

Eigi markmiðið um Norðurlönd sem samþættasta svæði heims að verða að veruleika þurfa norrænu ríkisstjórnirnar að leggja sitt af mörkum, ekki síst á sviði þekkingarþróunar.

„Þó að Norðurlönd standi framarlega hvað varðar uppbyggingu á rafrænni þjónustu hafa norrænir háskólar ekki náð eins langt þegar kemur að því að bjóða nám á netinu, veita rafrænan aðgang að rannsóknaniðurstöðum eða stunda rafrænt rannsóknasamstarf. Eigi norrænir háskólar að vera samkeppnishæfir á alþjóðavettvangi þarf að setja málefni stafrænnar þróunar í forgang,“ segir Jorodd Asphjell, formaður þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs.

Þingmennirnir leggja til að Norræna rannsóknaráðið (NordForsk) eigi frumkvæði að samstarfi um stafræna þróun á sviði æðri menntunar, auk þess að skapa vettvang til samskipta við EdTech-geirann, sem er í örum vexti í löndum okkar.

Velferðartækni sérstaklega mikilvæg á Norðurlöndum

Heilbrigðisgeirinn er á meðal þeirra sviða þar sem 5G-tækni gæti valdið byltingu. Því vill Norðurlandaráð koma á sameiginlegum stöðlum fyrir velferðartækni. Norðurlönd standa þegar framarlega í þróun velferðartækni, sem verður stöðugt mikilvægari eftir því sem meðalaldur borgaranna hækkar.

„Fela ætti Norrænu velferðarmiðstöðinni að samhæfa starfið að þróun norræns staðals á sviði velferðartækni sem byggi á 5G farsímaneti. Með velferðartækni og rafrænni heilbrigðisþjónustu er hægt að fylgjast með sjúklingi/notanda óháð tíma og stað. Þetta er einkar mikilvægt í okkar heimshluta, þar sem margir búa í dreifbýli og þyrftu ella að ferðast um langan veg til að leita þjónustu sérfræðinga,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndinnar.