Norðurlöndin eiga að vera með besta 5G-net í heimi, segja forsætisráðherrarnir

23.05.18 | Fréttir
Statsministrarna förevisas framtidens 5G-teknik
Photographer
Mary Gestrin
Norðurlöndin eiga að vera í fararbroddi í þróun og innleiðingu fimmtu kynslóðar þráðlausa netsins (5G). Þetta kemur fram í yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna eftir fundinn í Örnsköldsvik á miðvikudaginn. Norrænu ráðherranefndinni var falið að samhæfa vinnuna með því að gera sameiginlega áætlun til að ná markmiðinu.

Metnaðurinn gagnvart þessu skilvirka samstarfi er mikill og forsætisráðherrarnir skuldbinda sig til þess að skapa nauðsynleg pólitísk og samfélagsleg skilyrði fyrir samhliða innleiðingu 5G á öllum Norðurlöndum.

Gert er ráð fyrir að með 5G geti orðið til nýjar leiðir og tækifæri meðal annars á sviði samgangna, velferðarmála, umhverfis-,- og orkumála. Það er einnig til mikils að vinna fyrir atvinnulífið og iðnaðinn þegar kemur að því að hagnýta 5G, meðal annars með aukinni sjálfvirkni, fjarstýringu og aukinni notkun vélmenna.

„5G verður bylting í daglegu lífi okkar,“ segir Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Ráðherrarnir leggja allir áherslu á gildi þess þess að unnið sé bæði hratt og víðtækt.
“Norræna samstarfið skiptir sköpum um að við náum markmiðum okkar varðandi þróun og innleiðingu 5G,“ segir Katrín Jakobsdóttir sem einnig lagði sérstaka áherslu á möguleikana sem felast í hinni nýju tækni þegar kemur að loftslagsáhrifum. 

Forsætisráðherrarnir hafa áður lýst því yfir að Norðurlöndin eigi að vera samþættasta svæði í heimi og áætlunin um 5G er eðlilegur liður í þeirri þróun.

Verkefnið verður samstarf milli Norrænu ráðherranefndarinnar um stafræna væðingu og ríkisstjórna landanna, stjórnvalda sem koma að stafrænni væðingu og fulltrúa atvinnulífsins.