Norðurlöndin samstíga um eftirfylgni COP21

27.04.16 | Fréttir
Nordic Pavilion COP21
Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir funduðu þann 27. apríl 2016. Þeir kváðust eindregið hlynntir öflugri innleiðingu Parísarsamkomulagsins og ýttu úr vör fjölda nýrra aðgerða til að fylgja COP21 eftir. Ennfremur gáfu þeir út yfirlýsingu þess efnis að Norðurlönd styddu trausta umhverfisstjórnun á alþjóðavettvangi í krafti UNEA-2, annarrar umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og UNEP, Umhverfisstofnunar SÞ.

Á vorfundi sínum, sem fram fór í Finnlandi þann 27. apríl 2016, ræddu norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir aðgerðir í kjölfar COP21 og innleiðingu Parísarsamkomulagsins, svo og áframhaldandi samstarf um loftslagsmál.

„Parísarsamkomulagið lagði línurnar fyrir alþjóðlega stefnumörkun að grænum hagvexti og minni kolefnislosun. Nú hefst vinnan fyrir alvöru. Sem norrænir ráðherrar erum við eindregið hlynnt langtímamarkmiðum og skilvirkri innleiðingu samkomulagsins,“ sagði Kimmo Tiilikainen, landbúnaðar- og loftslagsráðherra Finnlands, fyrir hönd formennsku Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni.

Í kjölfar samþykkis ráðherranna verður fjölda verkefna með áherslu á norræna reynslu af minnkun kolefnislosunar á ýmsum sviðum ýtt úr vör á næstu mánuðum. Sérstök áhersla verður lögð á að greiða fyrir fjármögnun loftslagslausna úr einkageiranum, á innleiðingu landsmarkmiða (INDC) og það að gera almenning meðvitaðri um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á norðurslóðum.

Ráðherrarnir voru einnig á einu máli um að kanna möguleika á samnorrænum vettvangi á COP22, til að fylgja norræna skálanum á COP21 eftir.   

Parísarsamkomulagið lagði línurnar fyrir alþjóðlega stefnumörkun að grænum hagvexti og minni kolefnislosun. Nú hefst vinnan fyrir alvöru. Sem norrænir ráðherrar erum við eindregið hlynnt langtímamarkmiðum og skilvirkri innleiðingu samkomulagsins.

Norðurlöndin til varnar öflugri umhverfisstjórnun á alþjóðavettvangi

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) hefur notið mikils stuðnings norrænu landanna síðan hún var stofnuð í kjölfar fyrstu stóru umhverfisráðstefnu SÞ, sem fram fór í Stokkhólmi árið 1972. Nú er nauðsynlegt að umhverfisráðstefna SÞ (UNEA) og Umhverfisstofnun SÞ leiki lykilhlutverk í innleiðingu Áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030 og í því að greiða fyrir innleiðingu Parísarsamkomulagsins. Ráðherrarnir tjáðu því eindreginn stuðning við aðra umhverfisráðstefnu SÞ (UNEA-2), sem fram fer dagana 23.–27. maí 2016, og við Umhverfisstofnun SÞ, í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir samþykktu á fundi sínum.

Þá ræddu ráðherrarnir einnig vaxandi mengun sjávar af völdum plasts og plastagna. Lýstu þeir þungum áhyggjum af skaðlegum áhrifum rusls í sjó á heilsu manna og lífríki sjávar og hvöttu til aðgerða gegn plasti og plastögnum í sjó.