Norræn barátta gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

13.04.18 | Fréttir
MR-A
Svört vinna, skattsvik og mansal - brotastarfsemi og félagsleg undirboð á vinnmarkaði - í þessu felst ekki aðeins mikil hætta fyrir einstaklinga. Allt samfélagið skaðast vegna óheilbrigðarar samkeppni og slæmra starfsaðstæðna. Norrænu vinnumarkaðsráðherrarnir samþykktu yfirlýsingu um heilbrigða samkeppni og réttlátar starfsaðstæður á vinnumarkaði á fundi sínum í Stokkhólmi í dag.

Fyrirtæki eiga að keppa á grundvelli þekkingar og hæfni, ekki lágra launa, slæmra starfsaðstæðna eða skorts á öryggi. Þetta er meginboðskapur yfirlýsingar norrænu vinnumarksráðherranna sem einnig verður send framkvæmdastjórn ESB.

Reglufesta í forgangi hjá Svíum

Reglufesta á vinnumarkaði er meðal þeirra samstarfssviða sem eru í forgangi hjá Svíum á formennskuári þeirra í Norrænu ráðherranefndinni.

„Ástæða þess er að hluta að vandamál í tengslum við afbrot á vinnumarkaði fara vaxandi og að hluta að við glímum við svipaðar áskoranir á Norðurlöndum og getum því lært mikið hvert af öðru. Við getum sérstaklega lært mikið af Norðmönnum sem eru komnir mjög langt í sínum aðgerðum,“ sagði Ylva Johansson, ráðherra vinnumarkaðsmála og móttöku innflytjenda, þegar hún setti ráðherrafundinn.

Norðmenn beina spjótum sínum að svindli

Í Noregi hefur sjö svo kölluðum „A-krimicenter“ verið komið á fót, en þau eru í forystu í starfinu sem beinist að því að koma í veg fyrir brot á vinnumarkaði. Þar vinna lögregla, skattayfirvöld og vinnueftirlit saman að skyndiaðgerðum og eftirliti á vinnustöðum. Þar sem brot á vinnumarkaði hafa dreifst út frá byggingageiranum til margra annarra geira hafa aðilar vinnumarkaðarins komið á fót aðgerðaáætlunum innan einstakra geira atvinnulífsins.   

Aðrir ráðherrar greindu einnig frá dæmum um hvað reynst hefði vel í þeirra löndum.

Vel heppnaðar aðgerðir í finnska byggingageiranum

Jari Lindström, atvinnumálaráðherra Finnlands, sagði að þar í landi hefði tekist vel að vinna gegn svartri vinnu í byggingageiranum.

„Lykillinn að þessum árangri hefur verið sá að aðilar vinnumarkaðarins og yfirvöld hafa unnið saman gegn afbrotum á vinnumarkaði. Til dæmis hafa verið innleidd skilríki á byggingasvæðunum sem sýna að þeir sem þar starfa séu skráðir hjá skattayfirvöldum.

Norðurlöndin eiga um þessar mundir samstarf um sameiginlegt eftirlit á vinnustöðum.

Einnig er metið hvaða aðgerðir hafi áhrif þegar kemur að því að veita starfsmönnum og fyrirtækjum upplýsingar um réttindi þeirra og skyldur.

Evrópskt vinnumarkaðsstjórnvald kann að vera væntanlegt

Framkvæmdastjórn ESB lagði nýlega fram tillögu um að koma á fót evrópsku vinnumarkaðsstjórnvaldi sem myndi veita upplýsingar um réttindi og skyldur vegna starfa og fyrirtækja sem teygja sig yfir landamæri.   

Ráðherrarnir vilja með yfirlýsingu sinni leggja framkvæmdastjórn ESB til norræna sýn á sanngjarna samkeppni og réttlát vinnuskilyrði og vekja athygli hennar á að aðildarlöndin fara með þessi málefni á mismunandi hátt.

Sjálfstætt hlutverk aðila vinnumarkaðarins

Ráðherrarnir benda því á að sjálfstætt hlutverk aðila vinnumarkaðarins sem felst í gerð kjarasamninga og eftirfylgd með þeim er sameiginlegur þáttur í norræna vinnumarkaðslíkaninu. Aðilar vinnumarkaðarins gegna einnig stóru hlutverki þegar kemur að því að eiga við óheilbrigða samkeppni og slæm vinnuskilyrði.

Vinnumálaráðherrarnir styðja að fullu frjálsa för starfsmanna og þjónustufyrirtækja en benda á að þetta megi ekki leiða til svika og kerfisbundinnar misnotkunar á fólki.