Document Actions

Norræna eldfjallastöðin gerir tímamótarannsóknir

Fjallað er um norrænu eldfjallastöðina Nordvulk á forsíðu Nature, eins virtasta náttúrufræðirits í heiminum. Í kjölfar eldgosanna á Íslandi í vor sem leið hefur Nordvulk birt rannsóknaniðurstöður sem geta auðveldað mjög spár um eldgos í framtíðinni.

22.11.2010

- Niðurstöður okkar geta nýst til að spá fyrir um gos í eldfjöllum af svipaðri gerð, segir Rikke Pedersen eldfjallafræðingur frá Nordvulk.

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Eldgosin á Íslandi í vor stöðvuðu ekki einungis flugumferð í Evrópu. Þau veittu einnig Nordvulk, sem er norræn rannsóknamiðstöð á Íslandi, tækifæri til þess að gera einstæðar rannsóknir.

- Eyjafjallajökull hegðaði sér allt öðru vísi en við höfum áður séð og niðurstöður okkar geta nýst til að spá fyrir um eldgos úr svipuðum eldfjöllum, segir Rikke Pedersen, eldfjallafræðingur hjá Norrænu eldfjallamiðstöðinni.

Niðurstöðurnar úr rannsókn Nordvulk eru mikilvægar til að skilja það sem gerist í þessari tegund eldfjalla og þar með fyrir spár um ný eldgos.

- Fæst eldfjalla af þessari gerð í heiminum eru nægilega vel vöktuð til að menn greini þær takmörkuðu upplýsingar sem eru um að eldgos sé í aðsigi. Þar með verður erfitt að spá fyrir um ný eldgos, nær ómögulegt jafnvel, nema vöktunin sé aukin til muna.

Rannsóknin byggir aðallega á nákvæmum mælingum á yfirborði eldfjallsins og hvernig það breytist vegna bráðnunar sem á sér stað inni í fjallinu. Slíkar breytingar á Eyjafjallajökli hafa verið mældar með jöfnu millibili síðastliðin 18 ár.

Sú mynd sem mælingarnar sýna leiðir til nýs skilnings á þeim ferlum sem geta leitt til eldgosa.

Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið mjög mikilvægar á alþjóðavettvangi, þar sem þær sýna hvernig meðalvirk eldfjöll haga sér, þ.e.a.s. eldfjöll sem gjósa með nokkur hundruð eða þúsund ára millibili. Slík eldfjöll eru mörg, meðal annars við Kyrrahafið.

Nánar á nature.com

Nordvulk er stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er hún fjármögnuð af rannsóknafé ráðherranefndarinnar.

Tengiliðir

Rikke Pedersen rikke@hi.is