Norræna ráðherranefndin: „Við eigum að styðja við sprotafyrirtæki“

13.11.14 | Fréttir
Sven-Erik Bucht
Photographer
Sören Andersson/Regeringskansliet
Frumkvöðlastarf og leiðir til að einfalda regluverk voru meðal umræðuefna á fundi norrænu ráðherranefndarinnar um atvinnumál sem fram fór í Reykjavík þann 12. nóvember. Nýrri norrænni samstarfsáætlun er ætlað að greiða nýjum fyrirtækjum leið á heimsmarkað og greiða á fyrir rekstri fyrirtækja á Norðurlöndum með því að fækka stjórnsýsluhindrunum.

Það á að vera einfaldara að stofna fyrirtæki og við eigum að styðja við sprotafyrirtæki sem hyggjast herja á heimsmarkað. Þetta var meðal niðurstaðna norrænu atvinnumálaráðherranna á fundi þeirra í Reykjavík þann 12. nóvember.

„Norðurlönd eiga í samkeppni við aðra heimshluta. Þess vegna verðum við að skapa kjöraðstæður fyrir ný fyrirtæki og auka þannig samkeppnishæfni þeirra,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem stýrði fundinum.

Norðurlönd eru meðal leiðandi svæða í heiminum á sviði frumkvöðlastarfs og nýsköpunar, en ný fyrirtæki skortir oft úrræði og færni til að ná að stækka og dafna á alþjóðavettvangi. Ráðherrarnir telja því þörf á að nýta betur sameiginleg sóknarfæri í löndunum.

Ný samstarfsáætlun fyrir atvinnulífið

Á síðasta ári samþykktu norrænu atvinnumálaráðherrarnir nýja samstarfsáætlun um nýsköpun og atvinnumál. Á fundinum ræddu ráðherrarnir framvindu áætlunarinnar og hlýddu á kynningu á einu af áherslusviðum hennar: samstarfsverkefninu Nordic Entrepreneurship and Financing, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur umsjón með.

Markmið verkefnisins eru m.a. að kortleggja umgjörð sprotafyrirtækja á Norðurlöndum, þróa tæki til að gera nýjum fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna og leita nýrra leiða til að laða að starfsfólk og fjármagn.

Samstarfsáætlunin hefur alls fimm áherslusvið og er stýrt af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um að efla viðskipti og nýsköpun þvert á landamæri á Norðurlöndum.

Einfaldari reglur, færri stjórnsýsluhindranir

Í framhaldi af umræðum um stuðning við sprotafyrirtæki ræddu ráðherrarnir leiðir til að einfalda regluverk í atvinnulífinu.

Hafin verður rannsókn á möguleikum á auknu norrænu samstarfi um að einfalda regluverk í atvinnulífinu og á því að löndin læri hvert af öðru í auknum mæli. Markmiðið er að bæta umgjörð fyrirtækja og styrkja hinn sameiginlega norræna markað, ekki síst með tilliti til nýrra fyrirtækja.

Þá ræddu ráðherrarnir starfið sem miðar að afnámi stjórnsýsluhindrana milli landanna og var Sven-Erik Bucht, landbúnaðarráðherra Svía, það málefni einkum hugleikið, en hann býr á Haparanda/Tornio-svæðinu á landamærum Finnlands og Svíþjóðar.

„Ég hef séð með eigin augum hversu margt getur staðið í vegi fyrir viðskiptum og samgöngum yfir landamærin. Nú þurfum við að hefjast handa fyrir alvöru við að afnema stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum,“ sagði Sven-Erik Bucht.

Aukinn útflutningur og markaðssetning Norðurlanda

Að lokum ræddu ráðherrarnir möguleika á auknu Norðurlandasamstarfi um útflutningsþróun. Í febrúar 2015 verður skrifstofa opnuð í Abu Dhabi þar sem grænn hagvöxtur verður í brennidepli og norrænu samstarfi í Silicon Valley, Nordic Innovation House, hefur þegar verið hleypt af stokkunum.

Þá hefur Norræna ráðherranefndin nýverið kynnt sameiginlega áætlun um að kynna og marka stöðu Norðurlanda á alþjóðavettvangi.

Ráðherrarnir voru sammála um að samstarf í markaðssetningarmálum vægi þungt fyrir útflutningsumhverfi og ferðaþjónustu, en að einnig væri mikilvægt að beina sjónum að fjarlægum mörkuðum.

Norræna embættismannanefndin um atvinnumál mun vinna frekar að málefnum útflutningsþróunar og binda ráðherrarnir miklar vonir við áframhaldandi starf að sameiginlegri áætlun um markaðssetningu Norðurlanda.