Norræna velferðarkerfið mun standast áskoranir framtíðarinnar

20.08.16 | Fréttir
Elisabeth Aspaker
Photographer
Katrine Aakrann Ziesler/Foreningen Norden
Atvinnuleysi, deilihagkerfið og straumur innflytjenda – allt eru þetta áskoranir fyrir norræna velferðarlíkanið, ekki síst hvað varðar vinnumarkaðinn, en á þjóðfundinum í Arendal í Noregi kom glöggt í ljós að leiðandi stjórnmálafólk á Norðurlöndum hefur enn tröllatrú á líkaninu.

Ef marka má niðurstöður fjölda kannana hefur norræna líkanið skapað heimsins bestu samfélög til að búa í. Nú standa norræn samfélög frammi fyrir nýjum og æ stærri áskorunum: munum við geta aðlagast breyttum tímum og staðið vörð um velferðarkerfið til framtíðar? Svar stjórnmálamannanna sem funduðu í Arendalsvikunni er JÁ. En það gerist ekki af sjálfu sér. Við verðum að leggja okkar af mörkum til að standa vörð um og efla velferðina í samfélögum okkar, eigi norræna líkanið ekki að veikjast.

Það hefur sýnt sig, ekki síst á erfiðum tímum, að líkanið er lífseigt. Enginn spjaraði sig betur í fjármálakreppunni en við. Það eigum við tvennu að þakka: samstöðu og samstarfi. Ef við stöndum vörð um þessi gildi munum við líka geta leyst úr vandamálum framtíðarinnar.

Líkanið vörn á erfiðum tímum

Forseti Norðurlandaráðs, hinn danski Henrik Dam Kristensen, bendir á að það sé einmitt norræna líkanið sem hafi veitt löndunum vörn á erfiðum tímum.

„Það hefur sýnt sig, ekki síst á erfiðum tímum, að líkanið er lífseigt. Enginn spjaraði sig betur í fjármálakreppunni en við. Það eigum við tvennu að þakka: samstöðu og samstarfi. Ef við stöndum vörð um þessi gildi munum við líka geta leyst úr vandamálum framtíðarinnar,“ segir Kristensen.

Fyrrum ráðherra í Danmörku og framkvæmdastjóri hjá ESB, Poul Nielson, vann fyrr á þessu ári stefnumótandi úttekt á norrænum vinnumarkaðsmálum, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að skylduboðin fullorðinsfræðsla væri lykillinn að því að tryggja að samfélög okkar þróuðu þá hæfni sem nauðsynleg er til að mæta áskorunum framtíðar.

„Í sameiningu finnum við góðar lausnir á þessum áskorunum“

Líkt og Nielson telur Henrik Dam Kristensen að þekking sé lykillinn að því að efla atvinnustig, og bendir á að við þurfum að fara að líta á nýaðflutta samborgara okkar sem auðlind á vinnumarkaði, fremur en útgjaldalið.

„Það eru mikil mistök fólgin í því að gefa innflytjendum ekki raunveruleg tækifæri á vinnumarkaði. Margir búa yfir sérþekkingu frá heimalandi sínu, en eiga þó ekki annars kost en að byrja á byrjunarreit. Við ættum að nýta þá færni sem fólk kemur með í farteskinu í auknum mæli,“ segir forseti Norðurlandaráðs.

Elisabeth Aspaker, samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, telur mikilvægt að málefni sem eru ofarlega á baugi, t.d. áhrif aukins fjölda innflytjenda á samfélög okkar, séu til umræðu á vettvangi norræns samstarfs

„Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og sameiginlegar forsendur í ýmsum málum. Því liggur beinast við að leita lausna á þessum áskorunum í sameiningu,“ segir Aspaker, sem vinnur þessa dagana að undirbúningi formennsku Noregs í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2017.