Norrænar hagtölur 2017: Norðurlönd í góðum málum

11.10.17 | Fréttir
Dansende ældre
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Í dag kemur út ritið Norrænar hagtölur 2017 en þar er að finna ýmsan fróðleik um lífið á Norðurlöndum. Skoðið hvernig gengur á Norðurlöndum almennt og í hverju landi fyrir sig.

Norðurlöndin sem svæði

Norðurlandaþjóðirnar flytja út samanlagt fleiri vörur en þær flytja inn og er viðskiptajöfnuður á svæðinu jákvæður. Um 20% viðskipta fara fram innan Norðurlanda og á það bæði við um innflutning og útflutning. Þjóðverjar eru mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðurlanda. Útflutningur til Þýskalands nemur 13% af heildarútflutningnum en innflutningur þaðan nemur 18% af heildarinnflutningi.

Hagvöxtur mikill 

Hagvöxtur á Norðurlöndum árið 2016 var 2,0%, það er hærri en í Bandaríkjunum (1,6%), Japan (1,0%) og ESB (1,9%). Vergar þjóðartekjur á hvern íbúa eru hærri á Norðurlöndum en í ESB og Japan. Bandaríkjamenn eru enn auðugasta þjóðin.

Atvinnuleysi er minna á Norðurlöndum en í ESB-löndunum almennt. Það eru einkum konur og ungmenni sem spjara sig vel á vinnumarkaði. Atvinnuleysi ungra kvenna á aldrinum 15-24 ára mældist 10% en sú tala er töluvert lægri en meðaltalið í ESB sem er 18%. Almennt atvinnuleysi er einnig lægra en í ESB-ríkjunum. Meðal karla er það 1% minna en hjá konum er munurinn 2%. Á Norðurlöndum er atvinnuleysi minna meðal kvenna en karla en því er öfugt farið í ESB-löndunum almennt.

Viðskiptajöfnuður jákvæðastur í Danmörku

Hvað varðar vergar þjóðartekjur er viðskiptajöfnuður í Danmörku sá jákvæðasti á Norðurlöndum. Vextir eru einnig lægstir í Danmörku. Annað Norðurlandamet sem ber að nefna er feðraorlof en þar eru Danir ennþá skussinn í bekknum þegar kemur að þátttöku feðra í fæðingarorlofi.

Í Finnlandi starfa flestir að rannsóknum og þróun

Finnland og Danmörk eru enn í forystu hvað varðar fjölda starfsfólks við rannsóknir og þróun eða 2%. Samkvæmt PISA-mælingum frá árinu 2015 skaraði Finnland fram úr öðrum norrænu löndum, en það var einkum í náttúrufræðigreinum sem finnsku börnin spjöruðu sig vel. Finnland er frábrugðið hinum löndunum að því leyti hvað verðþróun á þarlendum húsnæðismarkaði er hæg.

Ísland í fararbroddi

Íslendingar slá mörg Norðurlandamet um þessar mundir. Íbúum hefur fjölgað um 33% frá árinu 1990 en sá hraði er áberandi í norrænum samanburði. Hagvöxtur er mikill og jókst um 7,2% á árinu 2016. Það ber að sjálfsögðu að skoða í ljósi fjölda gistinótta, en þeim hefur fjölgað um 232% á tíu árum.

Norðmenn auðugastir

Þrátt fyrir að hagvöxtur í Noregi hafi mælst sá lægsti á Norðurlöndum árið 2016 eða 1% eru Norðmenn ennþá auðugastir þjóðanna. Vergar þjóðartekjur á hvern íbúa eru mun hærri en annars staðar á Norðurlöndum. Tekjuafgangur í opinberum rekstri var einnig hæstur í Noregi 2016. Þá er undanskilinn hinn mikli tekjuafgangur á Íslandi í fyrra sem ákveðnir þættir útskýra. Noregur er það land þar sem fæst fólk er sjálfstætt starfandi. Á það bæði við um karla og konur.

Losun gróðurhúsalofttegunda minnst í Svíþjóð

Losun gróðurhúsalofttegunda mældist lægst í Svíþjóð árið 2015 eða 6 tonn koltvísýringsígildis á hvern íbúa. Er sú tala töluvert lægri en í hinum löndunum. Önnur sérstaða Svía miðað við hin Norðurlöndin er sú að þeir tóku á móti flestu flóttafólki á árinu 2016 eða 56% af heildarfjöldanum. Mikið dró úr fjölda hælisleitenda á Norðurlöndum milli áranna 2015 og 2016. Svíar eru sú Norðurlandaþjóð sem sækir um flest einkaleyfi.

Álandseyjar, Færeyjar og Grænland

Færeyingar eignast mun fleiri börn en aðrar þjóðir Norðurlanda, eða hvorki meira né minna en 2,6 börn á hverja konu árið 2016. Er það heilu barni meira á hverja konu í samanburði við finnskar konur. Þjóðfélagslegur jöfnuður er mestur í Færeyjum en þar mældist Gini-stuðullinn ekki nema 0,23 á árinu 2015. Stærstur ójöfnuður er á Grænlandi. Á Grænlandi getur nýfætt sveinsbarn átt von á að lifa ekki nema í um 70 ár, en það er tíu árum styttra en meðallífslengd karla á Norðurlöndum sem er 80 ár.

Á Álandseyjum mældist atvinnuleysi ungs fólks ekki nema 7,6% árið 2015, mun minna en t.a.m. í Finnlandi og Svíþjóð þar sem atvinnuleysi ungs fólks er um 20%. Áætlaður lífaldur norrænna kvenna var hæstur í Færeyjum árið 2015 eða 84,5 ár. Á hæla þeirra komu álenskar konur með 84,3 ár. Þetta er kannski skiljanlegt í ljósi þess að mannfjöldaspár um hlutfall aldraðra sýna hæstar tölur á Norðurlöndum. Á Álandseyjum er búist við að 27% íbúanna verði eldri en 65 ára árið 2040. Á Íslandi verður hlutfall þeirra væntanlega lægst eða 21%.

Norrænar hagtölur eru til sem rit í vasabroti og í gagnagrunni.