Norrænar lausnir á World Circular Economy Forum 2017

31.05.17 | Fréttir
Modebutik på Island
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlönd vilja vera leiðandi við framfylgni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, meðal annars með því að stuðla að breytingum frá línulegu hagkerfi til hringrásarhagkerfis. Á ráðstefnunni World Circular Economy Forum, sem fram fer í Helsinki 5.–7. júní n.k., stendur Norræna ráðherranefndin að málþingi þar sem fólk í forystu ræðir hringrásarskipulag á Norðurlöndum og víðar um heim.

Norræna ráðherranefndin er helsti styrktar- og samstarfsaðili ráðstefnunnar WCEF 2017. Þar kallar Sitra, sjálfstæðissjóður Finnlands, saman rúmlega 1500 sérfræðinga, valdhafa og annað áhrifafólk í Finlandiahúsið til samræðna um bestu hringrásarlausnir í heiminum. 

„Norðurlandaþjóðirnar hafa sýnt víðtækan vilja til að verða leiðandi afl við framfylgni sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi eru umskipti frá línulegu hagkerfi til hringrásarhagkerfis mikilvæg og þar er norrænt samstarf drífandi á ýmsum vígstöðvum,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á málþingi ráðherranefndarinnar fyrir fólk í forystu, „Circular Blueprints Gameshow – Driving the Economic Transition in the Nordics & Beyond“, verður rætt hvernig samspil stjórnvalda og annarra aðila skiptir máli í umskiptum til hringrásarhagkerfis.

Við verðum að knýja fram pólitískar breytingar sem hvetja fleiri fyrirtæki til að vinna samkvæmt grunnreglum hringrásarkerfisins.

„Við verðum að knýja fram pólitískar breytingar sem hvetja fleiri fyrirtæki til að vinna samkvæmt grunnreglum hringrásarkerfisins. Það sem er sjálfbært er arðbært, hvort sem litið er á efnahagslega afkomu eða hnöttinn sjálfan,“ segir Per Bolund, fjármálamarkaðs- og neytendaráðherra Svíþjóðar, en hann tekur þátt í málþinginu.

Elin Larsson, sjálfbærnistjóri hjá Filippa K, verður fulltrúi fataframleiðenda í umræðunni en norrænt samstarf hefur átt sér stað um að auka sjálfbærni í fatahönnun, neyslu og framleiðslu. Meðal annarra þátttakenda má nefna Jocelyn Blériot, framkvæmdastjóra Ellen MacArthur Foundation, Mariel Vilella, starfandi framkvæmdastjóra Zero Waste Europe og Kimmo Tiilikainen, húsnæðis-, orku- og umhverfisráðherra Finnlands.

Málþingið verður í beinu streymi á Facebookrásinni Sustainable Development the Nordic Way mánudaginn 5. júní kl. 11:15 á íslenskum tíma (kl. 13:15 á miðevrópskum sumartíma, CEST). Sjá dagskrá málþingsins hér.