Norrænar viðskiptahugmyndir í anda hringrásarhagkerfisins

10.09.15 | Fréttir
Jordglob
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Búnaður evrópskra sjúkrahúsa getur öðlast nýtt líf í þróunarlöndum. Framleiðum íþróttaföt sem eru svo endingargóð að þau þola að vera ítrekað í útleigu. Í nýútkominni norrænni skýrslu eru kynnt átján dæmi um viðskiptahugmyndir í anda hringrásarhagkerfisins.

Hringrásarhagkerfið gengur út á það að endurnýta, laga og að nýta úrgang sem auðlind.

Skýrslan var tekin saman í tengslum við verkefnið „Moving towards a circular economy“ sem vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um úrgangsmál sá um.

„Við vonum að þau átján dæmi sem er að finna í skýrslunni verði frumkvöðlum og fyrirtækjum innblástur og sýni þeim kosti hringrásarhagkerfisins,“ segir Sanna Due Sjöström, formaður Norræna úrgangshópsins.


Hringrásarhagkerfið er ofarlega á dagskránni í mörgum löndum og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur jafnframt lofað að leggja fram tillögu um hringrásarhagkerfið fyrir árslok.

Skýrslan Moving towards a circular economy

Í tengslum við verkefnið var haldin námsstefna. Meðal þátttakenda voru vísindamenn, starfsmenn opinberra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga, stjórnmálamenn og fulltrúar norrænna ráðuneyta.

Ein helsta niðurstaðan var sú að þörf væri á hvoru tveggja sameiginlegum reglum og pólitískum markmiðum sem leiða til aukinnar endurnýtingar.

Þess vegna eru í skýrslunni tillögur um hvað þurfi að gera til að stuðla að þróun hringrásarhagkerfis á Norðurlöndum. 

Meðal annars þarf sameiginlegar reglur sem stuðla að því að vörur séu framleiddar með þeim hætti að hægt sé að gera við þær og að vörur séu frá upphafi mótaðar þannig að þær endist lengi.

„Nú ætlum við að nýta tillögurnar í tengslum við starf landanna að því að koma á hringrásarhagkerfi.  Við leggjum fram tillögur um stýritæki sem geta hjálpað til við að beina þróun mála í rétta átt," segir Sanna Due Sjöström.

Skýrslan „Moving towards a circular economy“