Norrænir ráðherrar vilja tryggja fjölmiðla í almannaþágu til framtíðar

13.05.15 | Fréttir
Folkemødet 2013
Photographer
norden.org/Thomas Glahn
Norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa með nýrri yfirlýsingu innsiglað formlegt samkomulag um að stuðla að því að norrænir fjölmiðlar sem reknir eru í almannaþágu muni áfram sinna því hlutverki sínu að efla lýðræðislega umræðu og tryggja óháðan fréttaflutning á tímum stafrænna miðla.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar norrænna þemaumræðna um fjölmiðla í almannaþágu, sem fram fóru í tengslum við fund Norrænu ráðherranefndarinnar í Þórshöfn 12. og 13. maí, en fulltrúar fjölmiðla í almannaþágu á Norðurlöndum voru meðal þátttakenda.

Það er einstakt fyrirkomulag að reka fjölmiðla í almannaþágu eins og við gerum á Norðurlöndum. Við eigum að halda áfram að byggja á þessari hefð og standa vörð um hana, mitt í þeirri stafrænu þróun sem nú tröllríður öllu.

Marianne Jelved, menningarmálaráðherra Danmerkur og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar, lét eftirfarandi orð falla á fundinum:
„Það er einstakt fyrirkomulag að reka fjölmiðla í almannaþágu eins og við gerum á Norðurlöndum. Við eigum að halda áfram að byggja á þessari hefð og standa vörð um hana, mitt í þeirri stafrænu þróun sem nú tröllríður öllu. Til að svo megi verða þurfum við að tryggja almenningi á Norðurlöndum óháðan fréttaflutning og gott framboð frumlegrar og ögrandi gæðaumfjöllunar um málefni líðandi stundar, sem endurspeglar menningarleg og samfélagsleg gildi í hverju landanna. Það gleður mig að við skulum í dag hafa innsiglað samkomulag um þetta markmið okkar.“

Um yfirlýsinguna

Fjölmiðlaneytendur hafa sífellt meira frelsi til að ákveða hvaða efni þeir vilja skoða og hvenær, sem vekur ýmsar spurningar um markmið og hlutverk fjölmiðla sem reknir eru í almannaþágu. Ráðherrarnir leggja því áherslu á að við stjórnun slíkra miðla verði tryggt að unnt sé að deila efninu, svo það verði aðgengilegt og gagnlegt öllum neytendum stafrænna fjölmiðla. Þetta sé sérlega mikilvægt með tilliti til barna og ungmenna, því þau séu framtíðin.

Ráðherrarnir hyggjast halda áfram að ræða fjölmiðla í almannaþágu á Norðurlöndum, stjórnun þeirra og hlutverk í hinu stafræna fjölmiðlaumhverfi.