Norrænn leiðtogafundur um skólamál í Arendalsvikunni

17.08.15 | Fréttir
Á sama degi og þúsundir eftirvæntingarfullra barna héldu af stað í skólann í fyrsta sinn, efndu Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð til umræðna um framtíðarsýn í skólamálum. Á þjóðfundinum í Arendal í Noregi voru þekkingarmálaráðherra Noregs, Torbjørn Røe Isaksen, og Aida Hadzialic, ráðherra menntaskóla og þekkingarauka í Svíþjóð, auk fleira norræns stjórnmálafólks, fagfólks og almennings.

Báðir sögðust ráðherrarnir kalla eftir aukinni miðlun reynslu á sviði menntamála milli norrænu landanna.

„Þau lönd sem við ættum helst að bera okkur saman við eru hin norrænu grannlönd okkar. Það er merkilega algengt að ferðast um langan veg til að fræðast um menntamál, þegar litið er til þess hvað við getum lært mikið af því að heimsækja nágranna okkar,“ sagði Røe Isaksen.

Hvert er markmiðið með umbótum á skólakerfinu?

Norski þekkingarmálaráðherrann benti á að öll norrænu löndin, að Finnlandi undanskildu, hefðu staðið fyrir umbótum á skólakerfinu á undanförnum áratug og sagði að löndin gætu lært af reynslu hvert annars áður en nýjar aðgerðir kæmu til framkvæmda.

„Fyrri ríkisstjórn Svía virðist hafa keppst um að efna til sem flestra aðgerða í skólamálum, í þeirri von að einhverjar bæru árangur. Þetta snýst ekki um að koma sem flestum aðgerðum á koppinn, heldur um það hverju við fáum áorkað með því sem gert er,“ sagði Røe Isaksen. Ragnhild Lied, formaður norska kennarasambandsins (Utdanningsforbundet) tók undir orð hans:

„Árangur Finna í þessum málaflokki hefur fengið mikla og jákvæða athygli. Þó hafa þeir varla staðið að neinum umbótum í skólakerfinu, heldur tekið hlutunum með ró og treyst kennurunum. Hér í Noregi hafa staðið yfir hverjar umbæturnar á fætur öðrum og veðjað hefur verið á skyndilausnir fremur en langvarandi umbætur,“ sagði hún.

Vellíðan og þekking fara saman

Annette Lind, fulltrúi í Norðurlandaráði, sagði að í Danmörku stæðu nú yfir umbætur sem myndu bera árangur til lengri tíma litið, þar eð áherslan væri ekki eingöngu á þekkingu heldur líka á vellíðan:

„Við höfum hafið umbætur á grunnskólakerfinu sem gefa afar góða raun, og vonir standa til að sú menntun sem næsta kynslóð mun njóta verði betri en nokkru sinni fyrr. Þetta tekst okkur meðal annars með því að hafa skóladaginn lengri en í hinum norrænu löndunum. En það er ekki nóg að börnin læri í skólanum, þau þurfa líka að njóta verunnar þar. Því höfum við látið meta vellíðan barna í skólum landsins á hverju ári. Lærdómurinn á ekki að vera á kostnað vellíðunar barnanna; við verðum að leggja rækt við hvort tveggja,“ sagði Annette Lind.

Mikilvægi umræðna

Aida Hadzialic telur mikilvægt að við á Norðurlöndum veigrum okkur ekki við að ræða menntamálin, þó að umræðurnar geti verið erfiðar á stundum. Að hennar mati gengur alls ekki að „dæla fjármagni inn í skólana“ án þess að rýna jafnframt í það hvernig markmiðsbundinni stjórnun sé háttað í skólunum.

„Í sænskum skólum í dag er engin leið að vita hver það er, sem er við stjórnvölinn í skólunum. Efnahags og framfarastofnunin, OECD, hefur reynt að henda reiður á því, en enginn veit hvort það er ríkisstjórnin, þingið, sveitarfélögin, skólar eða skólastjórar sem bera ábyrgðina þegar upp er staðið. Þetta er stórt vandamál sem við verðum að þora að ræða,“ sagði Aida Hadzialic.

Hinn finnski Kai Alajoki, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að ræða málin.

„Ég vona að við munum áfram ræða málin svona opinskátt þegar við hittumst, óháð þjóðerni og stöðu í stjórnmálum, því að þannig getum við vonandi lært hvert af öðru og forðast mistök sem aðrir hafa gert,“ sagði Kai Alajoki.

„Við búum í siðmenntuðu landi“

Allir þátttakendur í umræðunum voru sammála um að auka ætti virðingarstöðu kennara.

Torbjørn Røe Isaksen rifjaði upp atvik frá ráðherranefndarfundi, þegar hann spurði finnskan embættismann hvernig á því stæði að staða kennara væri svo góð í Finnlandi. Svar embættismannsins var eftirfarandi: „Við búum í siðmenntuðu landi.“

Umræðurnar um menntamál fóru fram í Arendalsvikunni, þann 17. ágúst 2015.

Titill:
Læra börnin okkar nóg í skólanum?

Framsögur:
Erling Barth, sérfræðingur hjá Institutt for samfunnsforskning
Sten Runar Ludvigsen, prófessor við Institutt for pedagogikk UiO, og formaður Ludvigsen-nefndarinnar

Þátttakendur:
Torbjørn Røe Isaksen, þekkingarmálaráðherra, Noregi
Aida Hadzialic, ráðherra menntaskóla og þekkingarauka, Svíþjóð
Annette Lind, þingkona danska Sósíaldemókrataflokksins, talskona flokksins í menntamálum og fulltrúi í Norðurlandaráði, Danmörku
Heikki Holmås, þingmaður Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi (SV)
Kai Alajoki, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, Finnlandi
Samráðsvettvangur kennarasambanda á Norðurlöndum. Fulltrúi samráðsvettvangsins var Ragnhild Lied, formaður norska kennarasambandsins

Skipuleggjendur: Arendalsuka í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina/Norðurlandaráð

Um Arendalsvikuna (Arendalsuka):

Árið 2012 var efnt til þjóðfundar í Arendal – Arendalsviku – í fyrsta sinn. Arendalsvikan á að vera árlegur vettvangur þátttakenda úr stjórnmálum, samfélags- og atvinnulífi, þar sem þeir hittast og hitta íbúa svæðisins, ræða saman og marka stefnu í nútíð og til framtíðar.