Norrænn vinnumarkaður sextíu ára og öflugur sem fyrr

23.05.14 | Fréttir
Sameiginlegur vinnumarkaður er einn af hornsteinum norræna líkansins. Hann er nú öflugri en nokkru sinni fyrr. Eygló Harðardóttir, formaður Norrænu ráðherranefndarinnar 2014, er bjartsýn á framtíð norræns vinnumarkaðar en 60 ár eru liðin frá undirritun samnings um hann.

Ríkt traust og sterkur vilji til þríhliða samningaviðræðna, þ.e. milli heildarsamtaka á vinnumarkaði með þátttöku ríkisins, þykja meðal helstu einkenna hins sameiginlega norræna vinnumarkaðar. Þetta kom fram í máli Eyglóar Harðardóttur og annarra þátttakenda í pallborðsumræðum á afmælisráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar sem haldin var í Reykjavík dagana 21.–22. maí.

„Við höfum notið góðs af sameiginlegum vinnumarkaði, í harðæri og á uppgangstímum. Styrkur okkar liggur í tengslunum milli ríkjanna. Atvinnustig á Norðurlöndum er hátt og þátttaka kvenna á vinnumarkaði mikil. Við stöndum einnig framarlega hvað varðar vinnuumhverfi, svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Eygló Harðardóttir.

„Velferðarríkið er mikilvægur þáttur í sjálfsmynd Norðurlandabúa, en norræna líkanið snýst um fleira – við státum líka af atvinnulífi með hátt skipulagsstig og virkum stéttarfélögum. Þessir þættir auka aðlögunarhæfni okkar og þá er vert að standa vörð um til framtíðar,“ sagði norski ráðuneytisstjórinn Thor Kleppen Sættem.  

Þekking og færni tromp á hendi í velferðarsamfélagi

Rannsóknaniðurstöður úr nýútkominni skýrslu, „The Nordic model – challenged but capable of reform“, voru lagðar til grundvallar í framtíðarumræðum á ráðstefnunni. Rannsakendur ráðleggja ráðamönnum meðal annars að leggja aukna áherslu á færniþróun, einkum í yngri aldursflokkum, sem talið er skilvirkara með tilliti til kostnaðar.

Jenni Karjalainen frá atvinnumála- og iðnaðarráðuneyti Finnlands ítrekaði mikilvægi þess að hafa gæði að leiðarljósi í öllu menntastarfi.

„Menntun á að auka aðlögunarhæfni. Hún gengur út á að læra hvaða aðferðir henta hverjum og einum best til að tileinka sér nýja þekkingu – og ný tungumál,“ sagði Karjalainen.

Færni hefur líka alþjóðlegt aðdráttarafl. Dan Hjalmarsson hjá Tillväxtanalys, sænskri stofnun sem fæst við greiningar á vaxtarstefnu, lagði áherslu á að til að auka gæði rannsóknastarfs þyrftu Norðurlönd að laða til sín færara starfsfólk.

„Fjárfestingar leita þangað sem færni er fyrir og vinnumarkaður blómstrar. Hvað tækniþróun snertir, þá verðum við að hafa nægilegt ímyndunarafl til að sjá að störfin verða ekki á þrotum í bráð – ný störf er til að mynda að finna á sviði sjálfbærs hagvaxtar.“

Aðlögun á hnattvísu

Hnattvæðingin á eftir að setja svip sinn á vinnumarkað Norðurlanda á næstu áratugum, þar á meðal umræðuna um stjórnsýsluhindranir á vinnumarkaði. Í dag flytja 50 þúsund Norðurlandabúar á ári til annars norræns lands, sem dugir þó ekki til að mæta aukinni þörf fyrir vinnuafl vegna hækkandi meðalaldurs.

„Á Norðurlöndum búa 26 milljónir manna og stöðugt fleiri ná háum aldri. Ekki mun líða á löngu áður en 200 þúsund starfsmenn þarf til að sinna umönnun aldraðra í Svíþjóð. Þar sem Norðurlönd anna ekki slíkri eftirspurn verðum við að stuðla að frekari aðlögun og laða fólk til okkar – og þá gengur ekki að eistneskur sálfræðingur, sem vill koma hingað, þurfi að mennta sig aftur frá grunni,“ sagði Elisabeth Björnsdotter Rahm (M) frá Svíþjóð, fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs.

Eygló Harðardóttir vísaði í umræður um hnattvæðingu og lagði áherslu á að norrænum vinnumarkaði stæði ekki ógn af miklum straumi vinnuafls frá öðrum löndum.

„Við höfum getað tekist á við ýmiss konar flutningsmynstur hingað til og komum til með að geta það áfram“, sagði Eygló Harðardóttir.