Norrænt samstarf til stuðnings umskiptum til háþróaðrar framleiðslu

07.12.15 | Fréttir
dagfinn Høybråten og Troels Lund Poulsen
Miklir möguleikar felast í því fyrir norrænan framleiðsluiðnað að fjárfesta í nýrri, háþróaðri framleiðslutækni. Þess vegna þurfa Norðurlöndin að starfa saman að sameiginlegum aðgerðum til stuðnings iðnaðinum.

Framleiðsluiðnaðurinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki í hagkerfum norrænu landanna, en á síðustu tuttugu árum hefur fjórðungur starfa í framleiðsluiðnaði landanna tapast. Þess vegna ræddu atvinnumálaráðherrar Norðurlanda á fundi sínum í Norrænu ráðherranefndinni 7. desember 2015 hvernig löndin geti unnið saman að því að efla fræðslu og innblástur þvert á landamæri og að því að koma af stað sameiginlegum norrænum verkefnum á þessu sviði.

Það var Troels Lund Poulsen, ráðherra atvinnumála og hagvaxtar í Danmörku og formaður ráðherranefndar atvinnumálaráðherrranna, sem átti frumkvæði að þessari umræðu.

„Framleiðsluiðnaður á Norðurlöndum hefur mikla þýðingu fyrir þróun framleiðni, nýsköpunar, hagvaxtar, atvinnusköpunar og útflutnings, sérstaklega utan stærstu borganna. Þess vegna höfum við á öllum Norðurlöndunum sameiginlega hagsmuni af því að halda í og efla framleiðsluiðnað okkar.“

Sameiginleg ráðherrayfirlýsing frá Norrænu ráðherranefndinni

„Efling framleiðsluiðnaðarins er sameiginlegt markmið okkar. Þess vegna liggur beint við að beita sér fyrir því í gegnum Norrænu ráðherranefndina að miðla þekkingu og innblæstri úr landsbundnum verkefnum og að kanna hvort einhver ákveðin svið séu vel til þess falllin að setja af stað norræn verkefni sem geta stutt við umskiptin til háþróaðrar framleiðslu í því skyni að auka vöxt og skapa störf.

Fyrir fundinn hefur danska formennskuverkefnið „Framleiðsla á Norðurlöndum“ kortlagt tölvuvæðingu og aukna sjálfvirkni í framleiðsluiðnaðinum og tekið saman yfirlit um pólitískar aðgerðir á þessu sviði á Norðurlöndum.

Hér er skýrslan: Tölvuvæðing og aukin sjálfvirkni í framleiðsluiðnaði á Norðurlöndum

„Framleiðsluiðnaður á Norðurlöndum hefur mikla þýðingu fyrir þróun framleiðni, nýsköpunar, vaxtar, atvinnusköpunar og útflutnings, sérstaklega utan stærstu borganna. Þess vegna höfum við á öllum Norðurlöndunum sameiginlega hagsmuni af því að halda í og efla framleiðsluiðnað okkar.“

UPPLÝSINGAR úr skýrslunni

Yfir helmingur útflutnings frá Norðurlöndum er vöruútflutningur. Framleiðsluiðnaðurinn gegnir þess vegna mikilvægu hlutverki í öflun gjaldeyris og við að halda greiðslujöfnuði jákvæðum.

Frá 33 prósentum (Noregur) til 77 prósenta (Finnland) rannsókna og þróunar í einkageiranum fer fram í framleiðsluiðnaði.

Framleiðsluiðnaðurinn eykur velmegun og er mikilvægur þáttur í fjármögnun norrænu velferðarsamfélagannna. Að meðaltali eykst framleiðni í norrænum iðnaði um þrjú prósent á ári – samanborið við minna en eitt prósent vöxt í öðrum geirum.

Framleiðsluiðnaðurinn skapar störf hjá mörgum birgjum í öðrum geirum, til dæmis í þekkingar-, fjármála-, trygginga- og flutningaþjónustu og í byggingariðnaði.

Framleiðsluiðnaðurinn stuðlar að byggðajafnvægi. Ólíkt öðrum geirum á atvinnusköpun í framleiðsluiðnaði sér að miklu leyti stað utan háskólaborganna, þar á meðal á landsbyggðinni.

Í skýrslunni er bent á margvíslegar hindranir í vegi aukinnar tölvuvæðingar og sjálfvirkni:

Aðgangur að hæfu starfsfólki. Fyrirtæki í framleiðsluiðnaði segja að skortur sé á 1) sérfræðingum í upplýsingatækni, 2) starfsmönnum með almenna þekkingu á upplýsingatækni, 3) hámenntuðu starfsfólki (til dæmis verkfræðingum).

Aðgangur að fjármagni. Fjárfestingar í til dæmis vélmennum og háþróuðum tölvukerfum eru dýrar. Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga oft erfitt með fjármögnun.

Skortur á hæfum stjórnendum. Vegna tölvuvæðingar og nýrra viðskiptalíkana er þörf á áætlanagerð, aðlögun og skipulagningu. Minni fyrirtækin búa oft ekki yfir þeirri getu sem þarf til þróunar.

Aðgangur að þekkingu. Mörg framleiðslufyrirtæki eru oft að framleiða fáar einingar sem eru sérstaklega aðlagaðar að þörfum hvers viðskiptavinar. Það er flókið að auka sjálfvirkni og tölvuvæða slíka framleiðslu. Fyrirtækin þurfa að hafa aðgang að ráðgjöf og samstarfi við námsmenn, vísindamenn og önnur fyrirtæki.

UPPLÝSINGAR um verkefnið

Danska formennskuverkefnið „Framleiðsla á Norðurlöndum“ er undir stjórn Erhvervsstyrelsen í Danmörku og á að fá opinberar stofnanir og aðila úr einkageiranum til að koma að því að:

  • kortleggja það starf sem unnið hefur verið á sviði tölvuvæðingar og aukinnar sjálfvirkni í framleiðsluiðnaði á Norðurlöndum og að miðla niðurstöðum og góðum starfsháttum
  • skilgreina samnorræn verkefni sem geta stuðla að umskiptum til háþróaðrar framleiðslu

Á tímabilinu 2015–2017 fær verkefnið fjármögnun frá Norrænu ráðherranefndinni að upphæð 5,25 milljónir danskra króna.