Norrænt samstarfsnet fyrir fullorðna sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðisofbeldis

19.04.16 | Fréttir
Bente Stein Mathisen
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Ósk Norðurlandaráðs um stofnun samstarfsnets fyrir fullorðna sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðisofbeldis hefur hlotið hljómgrunn. „Þessi hópur fær ekki nægilega mikla aðstoð sem stendur og við erum því mjög ánægð með að heilbrigðis- og félagsmálaráðherranir ætli að ræða við aðila úr opinbera geiranum, einkageiranum og úr hópi sjálfboðasamtaka um að koma á fót norrænu samstarfsneti,“ segir Bente Stein Mathisen, þingmaður norska Hægriflokksins og formaður norrænu velferðarnefndarinnar.

„Heilbrigðisyfirvöld huga ekki nógu vel að einstaklingum sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðisofbeldis. Þetta eru nú einu sinni 5–10% allra Norðurlandabúa,“ segir Bente Stein Mathisen.

Norrænt samstarf og skipti á reynslu geta stuðlað að því að þessum málum verði betur sinnt í löndunum, aukið hæfni og eflt rannsóknir.

„Það vantar samhæfðar aðgerðir á þessu sviði, hvort tveggja landsbundnar og alþjóðlegar. Myndun samstarfsnets hefur norrænt notagildi og skilar samlegðaráhrifum milli rannsókna, frumkvöðlastarfs, opinbera geirans og frjálsra félagasamtaka sem gagnast löndunum. Við höfum mörg dæmi um góðan árangur, en það vantar vettvang til að geta skipst á reynslu,“ segir Stein Mathisen.

Þessi hópur fær ekki nægilega mikla aðstoð sem stendur og við erum því mjög ánægð með að heilbrigðis- og félagsmálaráðherranir ætli að ræða við aðila úr opinbera geiranum, einkageiranum og úr hópi sjálfboðasamtaka um að koma á fót norrænu samstarfsneti.

Alvarlegt samfélagslegt vandamál

Kynferðisofbeldi í barnæsku leiðir til erfiðleika á fullorðinsárum. Flestir þeirra sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi glíma við sálræn og félagsleg vandamál sem skerða lífsgæði þeirra. Sumir eiga í svo miklum efiðleikum að þeir megna ekki mennta sig, sinna vinnu eða mynda traust tengsl við annað fólk. Sumir leiðast út í fíkniefnaneyslu eða glíma við átröskun og sálræna, geðvefræna eða líkamlega kvilla.

Nánari upplýsingar um afleiðingar misnotkunar í æsku:

Sá skaði sem misnotkun í barnæsku veldur hefur ekki aðeins áhrif á einstaklinga, hann felur einnig í sér samfélagslegt vandamál. Skjót aðstoð við þennan hóp er ekki aðeins mikilvæg til að koma í veg fyrir og draga úr þjáningum, hún er einnig þjóðhagslega hagkvæm.

Norðurlandaráð beinir tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um

 

  • að hún setji á laggirnar samstarfsnet með áherslu á fullorðna sem búa við síðbúnar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis, skipað aðilum með haldgóða hæfni á þessu sviði úr opinbera geiranum, einkageiranum og frá frjálsum félagasamtökum. Netið fundi árlega til að stuðla að norrænu notagildi og samlegðaráhrifum milli rannsókna, frumkvöðlastarfsemi, opinbera geirans og þriðja geirans

 

  • að hún taki saman skýrslu um „Grønlandsmodellen – Rejseholdet“, þar sem greint er frá aðdragandanum að verkefninu, starfsaðferðum og aðgerðum lýst og ennfremur tillögum að breytingum sem gera þyrfti til að laga að aðstæðum annars staðar á Norðurlöndum

 

 

  • að hún bæti vandanum vegna ofbeldis gegn börnum og fullorðnum við verksvið Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar og einnig við gerð áætlunar á heilbrigðis- og félagsmálasviði á Norðurlöndum

 

 

  • að hún þrói menntunaráætlanir sem sniðnar eru að ólíkum starfsstéttum sem vinna með börn og ungmenni sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og fullorðna sem búa við síðbúnar afleiðingar þess, með það fyrir augum að efla almennar lýðheilsuáætlanir á Norðurlöndum

 

 

  • að hún efli rannsóknir; grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir og öndvegisrannsóknir norrænna stofnana til þess að tryggja að pólitískar ákvarðanir byggi á þekkingargrunni á öllum sviðum meðferðar og annarrar vinnu með börn og ungmenni sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og fullorðnum sem búa við síðbúnar afleiðingar þess.