Ný Norðurlönd: Tillögur að umbótum í norrænu samstarfi

04.04.14 | Fréttir
Ný Norðurlönd, skýrsla með umbótatillögum, barst norrænu samstarfsnefndinni þann 4. apríl. Í skýrslunni greinir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, frá framvindu verkefnis sem honum var falið þegar hann hóf störf á vordögum 2013. Verkefnið felst í að nútímavæða og endurnýja norrænt samstarf og auka skilvirkni þess. Tillögurnar í skýrslunni verða ræddar á fundi norrænu samstarfsnefndarinnar í apríl og á fundi samstarfsráðherranna í júní.

Stuttu eftir að Dagfinn Høybråten tók við störfum sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í mars 2013 fól samstarfsnefndin honum að rannsaka möguleika á umbótum og aukinni skilvirkni í norrænu samstarfi, einkum þegar kemur að ákvarðanaferlum og stjórnsýslu hjá ráðherranefndinni, norrænum stofnunum og verkefnum og við gerð fjárhagsáætlunar.

39 tillögur

Að lokinni greiningarvinnu kynnir Dagfinn Høybråten nú skýrsluna Ný Norðurlönd, sem inniheldur 39 tillögur að umbótum í samstarfi norrænu ríkisstjórnanna. Tillögunum er meðal annars ætlað að

– efla samstarf ráðherranna með því að tryggja innihaldsríkara og öflugra stjórnmálasamstarf,

– tryggja að skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar styðji við stjórnmálasamstarfið á skilvirkan hátt,

– skýra hlutverk og ábyrgð þáttakenda í norrænu samstarfi,

– gera breytingar á fjárhagsáætlun í þá veru að hún nýtist til stýringar og forgangsröðunar,

– auka norrænt notagildi verkefna og áætlana ráðherranefndarinnar,

– tryggja skýrari eigendastjórnun norrænu stofnananna.

Norræna samstarfsnefndin tekur tillögur framkvæmdastjórans til umfjöllunar þann 23. apríl. Norrænu samstarfsráðherrarnir áætla að ræða tillögurnar á fundi sínum þann 26. júní.

Metnaðarfullar tillögur

Dagfinn Høybråten segir í því sambandi:  

„Það gleður mig, sem framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, að ríkisstjórnirnar sýna enn mikinn metnað í norrænu samstarfi. Samstarfið hefur skilað miklum og áþreifanlegum árangri gegnum árin sem hefur gagnast norrænum borgurum. Þó er það svo að stofnun sem leitast ekki stöðugt við að bæta sig hlýtur að dragast aftur úr. Því set ég nú fram metnaðarfullar tillögur að umbótum sem ég tel brýnar til að tryggja norrænt samstarf til framtíðar.“

Hægt er að nálgast skýrsluna hjá útgáfudeild Norrænu ráðherranefndarinnar.