Ný norræn matarmenning í mótun

17.09.15 | Fréttir
New Nordic Cuisine at Nordi Cool 2013 in Washington
Photographer
Scott Suchman
Ný norræn matargerðarlist hefur enn þýðingarmikinn sess í alþjóðlegri matargerð. Lokaskýrsla um aðkomu Norrænu ráðherranefndarinnar að nýju norrænu matarhreyfingunni er nú aðgengileg. Í skýrslunni kemur fram að ný norræn matargerðarlist opni á ýmis félagsleg sóknarfæri, auk þeirra matartengdu.

Norræna ráðherranefndin hefur fjármagnað áætlun um nýja norræna matargerðarlist frá árinu 2007. Áætlunin byggir á stefnuskrá Nýja norræna eldhússins, en á grundvelli hennar hefur verið stefnt að því undanfarin átta ár að auka sýnileika norrænnar matarmenningar, bæði á heimavelli og alþjóðavettvangi.

Síðan stefnuskráin var undirrituð árið 2005 hefur ný norræn matargerðarlist haldið áfram að þróast og er nú orðin að félagslegri hreyfingu. Í skýrslunni „The emergence of a new Nordic food culture“ kemur fram að nú felist áskorunin í því að auka veg hreyfingarinnar enn frekar, svo að Norðurlönd verði á meðal bestu og mest nýskapandi matarmenningarsvæða í heimi.

Nýir möguleikar

Á síðasta umboðstímabili áætlunarinnar um nýja norræna matargerðarlist, 2010–2014, var áhersla lögð á möguleika hinnar nýju norrænu matarmenningar. Nýja skýrslan hefur að geyma niðurstöður allra verkefna sem unnin hafa verið undir merkjum áætlunarinnar síðast liðin fimm ár, en í henni er einnig litið fram á veginn.

Munu Norðurlönd áfram vekja jafn mikinn áhuga úti í heimi, inni á heimilum, á veitingastöðum og í opinberum eldhúsum? Getur norræn matargerð fest sig í sessi í áður óþekktu samhengi? Þessar spurningar, meðal annarra, eru settar fram í skýrslunni.

Nýr vinnuhópur hefur verið settur á laggirnar til að hafa umsjón með norrænu samstarfi um NNM á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar (sjá nánar á norden.org/nnf). En enginn vafi leikur á því að NNM-hreyfingin snertir á öllum stigum þjóðfélagsins.

Lesið lokaskýrsluna um Nýja norræna matargerðarlist: The emergence of a new Nordic food culture