Ný norræn-rússnesk samstarfsáætlun útfærð

06.09.16 | Fréttir
De nordiska flaggorna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Umsóknarferli vegna opinnar samstarfsáætlunar milli Norðurlanda og Rússlands hefst þann 3. október næstkomandi. Áætlunin er liður í því að Norræna ráðherranefndin hyggst nú leggja aukna áherslu á samstarf við Rússland, en norrænu samstarfsráðherrarnir tóku ákvörðun þar að lútandi í ársbyrjun. Á þriðjudaginn var ákveðið að leggja 6 milljónir danskra króna af fjárlögum ársins 2016 til hliðar fyrir samstarfsáætlun, sem mun hafa það markmið að stuðla að auknum stöðugleika, öryggi og þróun á svæðinu.

Nýja áætlunin styður við samstarf á öllum sviðum þar sem gagnkvæmir hagsmunir Norðurlanda og Rússlands eru til staðar; á milli staðbundinna og svæðisbundinna yfirvalda, menntastofnana, almenningssamtaka, samtaka atvinnulífs og hugveita. 

„Við eigum von á því að mikill áhugi verði á áætluninni,“ segir Jens Nytoft Rasmussen, aðalráðgjafi á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Bæði norrænum stofnunum og samstarfsaðilum þeirra sem og utanaðkomandi hagsmunaaðilum er frjálst að sækja um styrki úr áætluninni. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að aðilar frá minnst tveimur norrænum löndum og einn frá Rússlandi komi að viðkomandi verkefni.

Auk hinnar opnu samstarfsáætlunar, sem nú verður innleidd, samanstendur Rússlandsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar af þremur samstarfsáætlunum um ákveðin málefni sem utanaðkomandi norrænir samstarfsaðilar munu hafa umsjón með. Á þessu ári verður ýtt úr vör áætlun með áherslu á samstarf um heilbrigðismál. Áætlun um þróun á vettvangi borgaralegs samfélags og mannréttindamála verður innleidd síðar. 

Samstarf Norðurlanda og Norðvestur-Rússlands hefur legið í láginni eftir þá ákvörðun rússneska dómsmálaráðuneytisins í janúar 2015 að telja skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi til erlendra útsendara. Starfsemi skrifstofu ráðherranefndarinnar í St. Pétursborg verður áfram í lágmarki og skrifstofan tengist ekki því samstarfi sem nú er fyrirhugað.

Á árinu 2017 verður gerð úttekt á áætluninni um Rússland og mun umfang hennar í framhaldinu ráðast af reynslu af og áhuga á þeim undiráætlunum sem nú hefur verið ýtt úr vör.

Contact information