Ný norræn tískuhönnun til sýnis

31.07.14 | Fréttir
Ný norræn tískuhönnun verður til sýnis á tískuvikunni í Kaupmannahöfn í byrjun ágúst og síðar í haust í Sjanghæ. Vörumerki norrænnar hönnunar og tísku stendur vel að vígi á alþjóðavísu og framleiðendur vilja setja sjálfbærni á oddinn.

Á sýningunni fá gestir innsýn í hvernig vefnaðarvara er unnin úr nýstárlegum hráefnum eins og mjólk, þara og endurunnum flöskum. Að fötunum standa helstu hönnuðir á Norðurlöndum, svo sem David Andersen frá Danmörku, Filippa K frá Svíþjóð, Bóas Kristjánsson frá Íslandi, Leila Hafzi frá Noregi, Marimekko frá Finnlandi og fleiri.

„Sýningarstjóri er Ditte Marie Lund og til að glæða sýninguna lífi svo um muni fengum við listahópinn Dark Matters og hönnuðinn Cæcilie Parfelt Vengberg til liðs við okkur,“ segir Jonas Eder-Hansen frá Nýrri norrænni tísku.

Norræn gildi

Tískugeirinn er ein stærsta atvinnugrein heims og jafnframt meðal þeirra sem mest mengun hlýst af. Það kemur til af notkun hættulegra efna og mikilli vatnsnotkun, að ógleymdum félagslegum þáttum eins og barnaþrælkun og oft og tíðum slæmum vinnuaðstæðum verkafólks í þessum iðnaði.

Sjálfbær tískuiðnaður skiptir miklu fyrir umhverfi og samfélag og meðal markmiða Nýrrar norrænnar tísku er að sýna þau sóknarfæri sem felast í því að norrænir hönnuðir nota sjálfbær hráefni á skapandi hátt og tjá sig um gildi á borð við lýðræði, hreinleika og einfaldleika.

Samkeppnisforskot

Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin sýna sjálfbærri norrænni tískuhönnun mikinn áhuga. Norræni tískugeirinn er umsvifamikill, með sænska framleiðandann H&M; fremstan meðal jafningja, en Danir hyggjast efna til aðgerða tengdum málaflokkinum þegar þeir taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, 2015.

„Ósjálfbær fataiðnaður verður ósjálfbær einnig í framtíðinni,“ segir formaður Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten. „Með því að sýna gott fordæmi hvað varðar sjálfbærni á sviðum tísku og hönnunar geta Norðurlandabúar öðlast samkeppnisforskot og bætt heiminn um leið.“

Hægt verður að skoða sýninguna í Kaupmannahöfn 4.–10. ágúst.

Í nóvember verður hún liður í Nordic Design Week í Sjanghæ.