Ný skýrsla bendir á leiðir til að draga úr kolefnislosun svo um muni

22.10.15 | Fréttir
Ríkisstjórnir um allan heim verja 550 milljörðum bandaríkjadala á ári til niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Það er fjórföld sú upphæð sem varið er til niðurgreiðslu endurnýjanlegra orkugjafa. Í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar og Alþjóðastofnunarinnar um sjálfbæra þróun er bent á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 10–20 prósent á næstu 5 árum.

Yrði niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis hætt, myndi losun gróðurhúsalofttegunda minnka umtalsvert á næstu 5 árum. Ríkisstjórnir gætu svo dregið enn frekar úr losun með því að ráðstafa hluta þeirra fjármuna, sem sparast myndu, til eflingar endurnýjanlegrar orku og aukinnar orkunýtni.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um sjálfbæra þróun (IISD) og Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Norðurlönd hafa sýnt það og sannað undanfarna áratugi að það er hægt að stuðla að hagvexti en draga um leið úr kolefnislosun. Afnám niðurgreiðslna á jarðefnaeldsneyti gæti verið mikilvægt skref í þá átt. Við verðum að finna nýjar orkulausnir til framtíðar,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í skýrslunni er líkan til að reikna út áhrif þess að niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis yrðu afnumdar í 20 löndum fram að 2020.

Niðurstaðan er á þá leið að afnám niðurgreiðslna myndi hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá hverri þjóð um 11% að meðaltali árið 2020, samanborið við óbreytt ástand.

Ef ríkisstjórnir myndu einnig ráðstafa aðeins 30% þeirra fjármuna, sem myndu sparast, til eflingar endurnýjanlegra orkugjafa og aukinnar orkunýtni, myndi losun gróðurhúsalofttegunda hafa dregist saman um 18% að meðaltali í 20 löndum að aðeins 5 árum liðnum.

Friends of Fossil Fuel Subsidy Reform

Rannsóknarvinna vegna skýrslunnar var í höndum „Global Subsidies Initiative“, hóps á vegum Alþjóðastofnunarinnar um sjálfbæra þróun, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Þetta var liður í átaksverkefni norrænu forsætisráðherranna um grænan hagvöxt, „The Nordic Countries – leading in green growth“.

Norðurlöndin hafa veitt áformum um endurskoðun á niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis mikilvægan stuðning. Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland eiga aðild að hópnum Friends of Fossil Fuel Subsidy Reform (FFFSR), en meðal annarra aðildarlanda eru Nýja-Sjáland, Kosta Ríka, Sviss og Eþíópía.

Í aðdraganda COP21 loftslagsráðstefnunnar stendur FFFSR að yfirlýsingu þar sem skorað er á alþjóðasamfélagið að efla viðleitni til að afnema niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti.

„Meðalsparnaður ríkisstjórna á ári yrði um 93 bandaríkjadalir á hvert tonn kolefna sem ekki yrði losað út í andrúmsloftið. Afnám niðurgreiðslna á jarðefnaeldsneyti er þannig nokkuð sem ríkisstjórnir geta ekki lengur hunsað í stefnumótun sinni,“ sagði Anna Lindstedt, loftslagsmálaráðherra Svíþjóðar.

Norðurlöndin munu hafa sameiginlegan kynningarbás á COP21 og Norrræna ráðherranefndin stendur fyrir röð atburða undir yfirskriftinni „Nýjar norrænar loftslagslausnir“ (New Nordic Climate Solutions), þar sem m.a. verður rætt um að endurskoða niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti.