Document Actions

Nýir landvinningar fyrir nýja norræna matargerðarlist

Ný norræn matargerðarlist hefur innreið sína á nýja markaði. Meðal nýjustu verkefna eru götueldhús, norrænn matur fyrir sendiherra og heilsumatur fyrir sveitta tölvunörda. Matur í stofnunum og gæði máltíða á sjúkrahúsum, í skólum og öðrum stofnunum eru einnig í brennidepli.

04.03.2013

Norræna ráðherranefndin hefur verið hluti af nýju norrænu matarhreyfingunni frá byrjun. Og ráðherranefndin tekur enn virkan þátt í að kynna hugmyndina með röð viðburða. Nýlega var lokið við stöðumat á verkefni ráðherranefndarinnar, Ný norræn matargerðarlist II (NNFII).  

Norrænn matur í stofnunum og gæði máltíða á sjúkrahúsum, í skólum og öðrum stofnunum er eitt af því sem NNFII snýst um. Notkun norrænnar matargerðar í markaðsskyni er annað atriði sem áhersla er lögð á.

„Í matinu kemur fram að áætlunin ný norræn matargerðarlist hefur aukið þekkingu á norrænni matarmenningu og vakið athygli á gæðum matvæla okkar. Við höfum þróað markaðstæki sem nýta norræna matargerð og hvetja til nýsköpunar á svæðinu", segir Lena Brenner formaður stýrinefndar NNF II.

Verkefnið byggir á pólitískri þátttöku norrænu ríkjanna og framlagi fjölda fagmanna á sviði matargerðar, menningar, hönnunar og lista. Ný norræn matargerðarlist er einnig hluti af KreaNord áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem fjármagnar fjölda matartengdra verkefna í tengslum við áherslu KreaNord á skapandi greinar.

Stöðumat sýnir góðan árangur

Stöðumatið var framkvæmt af CMA Research fyrir sænska landbúnaðarráðið í janúar. 247 svarendur, þar á meðal hagsmunaaðilar verkefnisins og þátttakendur, tóku þátt í könnuninni.

Niðurstöður benda til þess að verkefnið Ný norræn matargerðarlist II sé unnið samkvæmt þeim áætlunum sem gerðar voru af Norrænu ráðherranefndinni. Í könnuninni er einnig bent á mikilvæg þróunartækifæri fyrir áætlunina.

„Mikill fjöldi alþjóðlegra viðburða og aukinn áhugi erlendis frá krefst aukinnar upplýsingamiðlunar um Nýja norræna matargerðarlist á ensku. Við viljum einnig beina aukinni athygli að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og menntakerfinu á næstu tveimur árum. Menntun um mat fyrir börn er eitt af mikilvægustu sviðunum sem við erum að færa okkur inn á, segir Brenner.

Ný norræn matargerðarlist er einnig mikilvægur hluti Nordic Cool menningarhátíðarinnar í Washington DC og þróun áætlunarinnar heldur áfram. Meðal nýjustu verkefna eru norrænn sendiherramatur fyrir sendiherrana og heilsumatur fyrir tölvunörda.

www.newnordicfood.org

http://www.nfd.nynordiskmad.org/

Bakgrunnsupplýsingar

Ný norræn matargerðarlist er upplýsingaáætlun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem vekur athygli á norrænni matargerðarlist á Norðurlöndum og alþjóðavettvangi. NNF II stendur yfir á tímabilinu 2010-2014. NNF II leggur áherslu á að bæta máltíðir á heimilum og stofnunum, að efla matarmenningu barna og hvetja til staðbundinnar matvælaframleiðslu og notkun matar til að kynna svæðið. NNF II lítur á matargerðarlist sem mikilvæga skapandi grein og hvetur til samstarfs við aðrar skapandi greinar á Norðurlöndum.

Lesa stöðumatið

Nánari upplýsingar:

Lena Brenner
formaður stýrinefndar NNF II
lena.brenner@landsbygd.ax
+358(0) 457 526 7305
Tengiliðir

Bettina C. Lindfors, upplýsignaráðgjafi, NNF II bettina.c.lindfors@gmail.com +358 (0) 50 599 5244