Nýr norrænn samstarfsráðherra í Danmörku

04.02.14 | Fréttir
Carsten Hansen, ráðherra húsnæðis-, bæja- og byggðamála, varð einnig norrænn samstarfsráðherra þann 4. febrúar 2014. Markmið dönsku ríkisstjórnarinnar er enn sem fyrr að efla samstarf Norðurlandanna. Löndin geta lært margt hvert af öðru ekki síst um byggðaþróun og borgarskipulag.

Carsten Hansen (S) hlakkar til að takast á við norrænt samstarf.

„Öll löndin standa frammi fyrir svipuðum áskorunum, gildismat okkar er um margt líkt og því eygi ég ýmis tækifæri nú þegar Norðurlandasamstarfið bætist við minn verkahring. Ég hafði ánægju af því að starfa í Norðurlandaráði þar til ég varð ráðherra. Norrænt samstarf hefur ætíð átt stað í pólitísku hjarta mínu og ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni,“ segir ráðherrann og bendir á að gífurlegt verkefni er framundan þar sem Danir taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót.

Nýlega kom út skýrsla Dansk Erhverv (Samtaka atvinnulífsins) sem sýnir að meira en fimmtungur heildarútflutnings Dana fer til norrænu nágrannalandanna. Norðurlöndin sem svæði eru því stærsti útflutningsmarkaður Dana.  Í skýrslunni kemur einnig fram að Norðurlöndin komi þokkalega út úr efnahagskreppunni og að vaxtarhorfur séu góðar.

„Eitt helsta verkefni mitt sem norrænn samstarfsráðherra verður að afnema stjórnsýsluhindranir og efla þannig viðskiptatækifæri en einnig atvinnu innan Norðurlandanna. Atvinnutækifæri eru í húfi, hér heima fyrir en einnig annars staðar á Norðurlöndum þar sem fjöldi Dana starfar,“ segir ráðherrann að lokum.