Nýr samningur til fimm ára um stuðning við norrænar kvikmyndir og sjónvarpsefni

28.04.14 | Fréttir
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda og kvikmyndastofnanir og sjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum tilkynntu í dag um nýjan samning til fimm ára við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Samkvæmt samningnum mun sjóðurinn hafa sama fé til umráða á árunum 2015 til 2019 og hann hefur nú, það er að segja 78 milljónir danskra króna.

„Norrænar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir verða sífellt mikilvægari þáttur í því hvernig við skiljum hvort annað á Norðurlöndum og enn frekar utan Norðurlanda þar sem þær hjálpa til við markaðssetningu norrænnar menningar og norrænu landanna. Það er því einkar ánægjulegt að geta haldið áfram að styðja þetta samstarf við kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn á Norðurlöndum,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014.

„Við lítum á áframhaldandi þátttöku Norrænu ráðherranefndarinnar sem viðurkenningu á því starfi sem allir samstarfsaðilar innan iðnaðarins hafa unnið á síðustu árum og sem skilað hefur þeirri velgengni sem þegar er farið að kalla gullöld norrænna kvikmynda og sjónvarps,“ segir Petri Kemppinen, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

„Stöðugt flæði fjölbreytilegra kvikmynda sem hljóta verðlaun á alþjóðavettvangi, þar á meðal Óskars-verðlaunin, og lofsamlegar umsagnir að undanförnu um leikna sjónvarpsþætti — ekki aðeins innan Norðurlanda heldur einnig alþjóðlega — má líta á sem frábær tæki til að koma á framfæri og flytja út norræna frásagnarlist, menningu og gildi beint til almennings. Fjárhagstuðningnum sem veittur er á nýja samningstímanum er ætlað að efla enn frekar aðgengi áhorfenda og gæði norrænna verkefna.“

Á hverju ári styður Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn framleiðslu og dreifingu um það bil fimmtíu kvikmynda, heimildamynda og leikinna sjónvarpsþátta. Hann styður og skipuleggur viðburði í þessum geira á borð við samkomuna „Nordic talents“ (Norrænt hæfileikafólk) sem haldin er árlega. Hann hefur jafnframt umsjón með Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs sem markað hafa sér sterka stöðu og sem veitt eru í október á hverju ári.

Sjóðurinn hefur 78 milljónir danskra króna til umráða á hverju ári. Af því kemur þriðjungur frá Norrænu ráðherranefndinni, þriðjungur frá kvikmyndastofnununum og -sjóðunum fimm á Norðurlöndum og þriðjungur frá ellefu ríkis- og einkasjónvarpsstöðum.