Opnað hefur verið fyrir skráningar á þemaþing Norðurlandaráðs

05.03.14 | Fréttir
Vandkraftværk på Island
Photographer
Ane Cecilie Blichfeldt
Búist er við því að fiskveiðideilur í Norður-Atlantshafi og tillaga um sjálfbærniviðmið í námuvinnslu á Norðurlöndum muni hleypa lífi í umræðurnar á þemaþingi Norðurlandaráðs á Akureyri. Á þinginu, sem fer fram 8. apríl, verður sjálfbær nýting náttúruauðlinda í brennidepli. Skráning fjölmiðlafólks er hafin.

Tillaga um að þróa viðmið fyrir sjálfbæra námuvinnslu á Norðurlöndum verður afgreidd á þinginu. Tillagan var að frumkvæði flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði og vilja þeir að viðmiðin verði staðfest í yfirlýsingu um ábyrga námuvinnslu.

Deilur um makríl- og síldveiðar í Norður-Atlantshafi hafa skapað titring í norrænu samstarfi. Norðurlandaráð telur mikilvægt að leitað verði sjálfbærra langtímalausna á deilunum, lagalegra og líffræðilegra. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs hafði frumkvæði að því í október síðastliðnum að gerð yrði úttekt á fiskveiðistjórnun úthafsstofna í Norðaustur-Atlantshafi og hvernig aðgerðir gætu stuðlað að sjálfbærri stjórnun.

Meðal þátttakenda í þemaumræðunum eru Eygló Harðardóttir, ráðherra norræns samstarfs og Sigurður Ingi Jónasson, ráðherra sjávarútvegs-, landbúnaðar-, umhverfis- og auðlindamála, auk Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Þemaþing Norðurlandaráðs verður sett þann 8. apríl kl. 13. Flokkahópar og nefndir Norðurlandaráðs munu funda á mánudegi og fyrri part þriðjudags áður en þing er sett.

Fjölmiðlafólki sem vill fylgjast með þemaþinginu er bent á að skrá sig eigi síðar en miðvikudag 2. apríl með þessu eyðublaði. Hægt er að sækja um ferðastyrki.

Upplýsingar um blaðamannafundi og önnur hagnýt atriði verða uppfærðar reglulega á slóðinni www.norden.org/themathing2014.