Pólitík í 140 stafabilum

10.07.14 | Fréttir
facebook
Photographer
Eivind Sætre
Notkun samfélagsmiðla er hvergi eins útbreidd og á Norðurlöndum. En hvernig geta Facebook og Twitter stutt við og styrkt hið norræna samstarf? Leitað var til tveggja ungra stjórnmálamanna, sem bæði hafa brennandi áhuga á málefnum Norðurlanda.

„Samfélagsmiðlar snúast um gagnsæi og skoðanaskipti,“ segir Silja Borgarsdóttir Sandelin, fulltrúi í Norðurlandaráði æskunnar. „Þess vegna á maður ekki bara að tala sjálfur heldur líka hlusta á það sem aðrir hafa að segja. Með því að hlusta og skiptast á skoðunum verðum við sýnilegri en ella á vettvangi norræns samstarfs.“

Jakob Esmann, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, er iðinn við að nota samfélagsmiðla til að vekja athygli á norrænum málefnum. Esmann telur að norrænir stjórnmálamenn beri mikla ábyrgð á að vekja áhuga á norrænum málefnum heima fyrir.
„Við vitum að það er erfitt að fá fréttir um norræn málefni á forsíður dagblaðanna. En ef fjölmiðlarnir leggja ekki áherslu á norrænt efni verðum við að gera það. Saman getum við stofnað til norrænnar umræðu – til dæmis á samfélagsmiðlum. Ef við, stjórnmálamennirnir í norrænu samstarfi, setjum norræn málefni ekki á dagskrá, hver ætti þá að gera það?“

Gárur á vatnsfleti

Mest ber á pólitík í norrænu samstarfi á þingum Norðurlandaráðs. Einkum iðar samfélagsmiðillinn Twitter af lífi undir kassamerkjunum #nrsession og #unginorden. Silja Borgarsdóttir Sandelin og Jakob Esmann taka bæði þátt í umræðunni á Twitter þegar norrænn þingheimur safnast saman.
„Það eru takmörk fyrir því hve margir komast fyrir í þingsalnum þegar þing Norðurlandaráðs stendur yfir, en á Twitter er engin mælendaskrá. Við fjöllum um mikilvæg málefni sem snerta Norðurlandabúa allt frá Umeå til Reykjavíkur, og á Twitter breiðist umræðan út eins og gárur á vatnsfleti. Ummælaþráðurinn á Twitter miðlar þinginu til borgaranna og gefur þeim kost á að taka þátt,“ bendir Silja á.

Sýnileiki krefst hugrekkis

Aukið gagnsæi í norrænu samstarfi í framtíðinni er ofarlega á óskalista Jakobs Esmann. Hann bendir á að fólk getur sjálft tekið þátt á samfélagsmiðlum – á öðrum forsendum en þegar dagblaði er flett eða kveikt á sjónvarpstækinu.
„Við eigum að vera hugrökk og þora að vekja athygli á því að tímafrekir verkferlar, skiptar skoðanir og ólíkar fylkingar fyrirfinnast innan norræns samstarfs. Það má vera að það sé barnalegt að hugsa þannig, en mér finnst gagnsæi vera mikilvægur þáttur í lýðræði. Ákvarðanir um norræn málefni snerta alla á Norðurlöndum, svo því ekki að opna umræðuna og leyfa fólki að taka þátt?“

Norrænt samstarf á samfélagsmiðlum
Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin taka virkan þátt á Facebook, Twitter, LinkedIn og Instagram. Fylgist með og takið þátt í umræðunni!

Facebook
• Facebook.com/nordensk (danska, norska og sænska)
• Facebook.com/nordenis (íslenska)
• Facebook.com/nordenen (enska)
• Facebook.com/nrlitteraturpris: Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
• Facebook.com/sdnordic: Sustainable development the Nordic way

Twitter

• Twitter.com/nordensk (danska, norska og sænska)
• Twitter.com/nordenen (enska)
• Twitter.com/nordenis (íslenska)

LinkedIn
• Follow company: The Nordic Council of Ministers and The Nordic Council
Instagram: Fylgist með Nordicways – norrænu samstarfi í myndum