Ráðherrar ræða öflugt norrænt samstarf á sviði orkumála

24.11.16 | Fréttir
Ministerrådsmöte i Helsingfors med Olli Rehn
Photographer
Matts Lindqvist
Norrænu orkumálaráðherrarnir funduðu í Helsinki þann 24. nóvember. Þar ræddu þeir meðal annars þörfina á nýrri framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála í kjölfar stefnumótandi úttektar Jorma Ollila á samstarfinu. Ollila kynnti bráðabirgðaniðurstöður starfs síns á fundinum. Að auki ræddu ráðherrarnir áskoranir á norrænum raforkumarkaði, aukið samstarf norrænna aðila og samstarf um ferli Evrópusambandsins.

Sameiginlegur norrænn raforkumarkaður fagnar 20 ára afmæli í ár. Hann er þróaðasti raforkumarkaður heims þvert á landamæri. En jafnvel hið vel samþætta norræna orkumálasamstarf stendur nú frammi fyrir stórum áskorunum.

Hin stefnumótandi úttekt á orkumálasamstarfinu sem orkumálaráðherrarnir hafa falið finnska framkvæmdastjóranum Jorma Ollila að vinna, er liður í því að takast á við þessar áskoranir. Á fundinum á fimmtudaginn kynnti Ollila bráðabirgðaniðurstöður sínar fyrir ráðherrunum. Lokaskýrsla verður kynnt á vordögum 2017, þegar Noregur mun gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Ný framtíðarsýn skal vera markviss

Í ljósi metnaðarfullra markmiða norrænu landanna í loftslags- og orkumálum og áforma ESB um orkubandalag telja orkumálaráðherrarnir þörf á því að norrænu löndin móti nýja framtíðarsýn fyrir norrænt orkumálasamstarf.

„Sú sýn ætti að innihalda skýr, stefnumótandi markmið fyrir samstarfið næstu tíu árin, en næsti áratugur mun færa okkur ýmsar áskoranir hvað varðar umskipti yfir í græna orku. Beinna aðgerða er þörf, meðal annars til að skapa aukin tækifæri í raforkudreifingu svo að Norðurlöndin geti byggt upp sameiginlegan markað fyrir endurnýjanlega orku sem veitir góða og áreiðanlega þjónustu,“ segir orkumálaráðherra Finnlands, Olli Rehn.

Beinna aðgerða er þörf, meðal annars til að skapa aukin tækifæri í raforkudreifingu svo að Norðurlöndin geti byggt upp sameiginlegan markað fyrir endurnýjanlega orku sem veitir góða og áreiðanlega þjónustu.

Ráðherrarnir voru á einu máli um að í framtíðarsýninni yrði skýr áhersla lögð á að festa í sessi norræna styrkleika og norrænar aðferðir til að geta betur greint sameiginlegar áskoranir. Framtíðarsýnin á einnig að innihalda bestu leiðir til að vekja athygli á sérkennum Norðurlanda í umskiptunum til grænnar orku, nú í kjölfar Parísarsamkomulagsins. Auk þess er henni ætlað að tryggja norræn áhrif á vettvangi ESB og orkubandalagsins, einnig á svæðisbundnum ráðstefnum þar sem norrænir aðilar verða meðal þátttakenda.

Óskað eftir aukinni virkni viðskiptavina

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir einnig áskoranir á raforkumarkaði sem hljótast af ört vaxandi hlutdeild lotubundinnar raforkuframleiðslu og því að óðum er verið að hætta framleiðslu á kjarnorku og annarri varmaorku. Flutningsfyrirtæki vinna nú að framkvæmdaáætlun sem lögð verður lokahönd á árið 2017, en hún verður mikilvægur þáttur í þróun markaðarins.

Áskorarnir á raforkumarkaði verður ennfremur tekist á við að einhverju leyti með því að auka virkni viðskiptavina á markaðinum. Aukin virkni viðskiptavina leiðir til aukinnar skilvirkni á markaði, betri möguleika á að takast á við orkutoppa og hefur í för með sér aukinn ávinning fyrir umhverfið. Á næsta ári hyggjast samtök eftirlitsstofnana með orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum (NordREG) skoða sveigjanleika í eftirspurn nánar.

Aukið samstarf æskilegt

Ráðherrarnir sögðu mikilvægan þátt í velgengni norræns raforkumarkaðar felast í góðu samstarfi milli norrænna flutningskerfisfyrirtækja, yfirvalda og iðnaðarsamtaka. Samstarfið ætti þó að þróa áfram með hliðsjón af væntanlegum ESB-ferlum í því skyni að tryggja skilvirka nýtingu auðlinda okkar og nægilegar fjárfestingar í flutningsgetu, bæði innan norrænu landanna og á milli þeirra.

Flutningskerfisfyrirtækin eiga að skila heildstæðri norrænni fjárfestingaáætlun á árinu 2017. Ráðherrarnir bíða þess með eftirvæntingu að ræða „pakka“ flutningskerfisfyrirtækjanna með sameiginlegum forgangsverkefnum á ráðherrafundi næsta árs.

Orkubandalagið rætt

Á fundinum héldu ráðherrarnir áfram þeirri umræðu um orkubandalag ESB sem hófst í fyrra. Þeir skiptust á upplýsingum um væntanlegar tillögur og ræddu samstarfið á norrænum vettvangi innan ramma orkubandalagsins.

Unnið verður að væntanlegri framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála á formennskuári Norðmanna 2017. Þar mun stefnumótandi úttekt Jorma Ollila reynast gagnlegur útgangspunktur. Norðmenn vilja að Norðurlöndin setji það í forgang að fylgja „vetrarpakka“ ESB eftir, en í honum eiga löndin sameiginlega hagsmuni, auk orkubandalagsins. Norðmenn vekja ennfremur athygli á því að öll norrænu löndin hafa kynnt, eða munu kynna, skjöl um loftslags- og orkumál.