Ráðherrar vilja nánara samstarf um málefni ESB

09.02.17 | Fréttir
Norræna ráðherranefndin á að auka skilvirkni í stefnu sinni um málefni ESB. Þetta sögðu norrænu samstarfsráðherrarnir á fundi í Ósló þann 8. febrúar, sem var fyrsti fundur þeirra á formennskuári Noregs í ráðherranefndinni.

Samstarfsráðherrarnir nefna sérstaklega þrjú svið sem séu mikilvæg fyrir Norðurlönd í Evrópu: orkumál, loftslags- og umhverfismál og stafvæðingu. Ráðherrarnir vilja efla samstarfið á þessum sviðum, auk annarra sem máli skipta.

„Á umbrotatímum sem einkennast af litlum fyrirsjáanleika og örum breytingum þarf Evrópa á skýrum Norðurlöndum að halda,“ segir samstarfsráðherra Noregs, Frank Bakke-Jensen, sem stjórnaði ráðherrafundinum.
„Örugg Evrópa, sterkt Evrópusamstarf og skilvirkur innri markaður – þessi atriði skipta öll Norðurlönd miklu máli,“ segir hann.

Finnar vöktu máls á samhæfingu samstarfs á vettvangi ESB og EES á formennskuári sínu 2016, og er slík samhæfing einnig forgangsmál í formennskuáætlun Noregs fyrir Norrænu ráðherranefndina árið 2017. Þetta samstarfssvið er gott dæmi um samfelluna í norrænu samstarfi, þar sem formennskan færist árlega milli landa.  

Samstarfsráðherrarnir vilja að málefni ESB verði til umfjöllunar á öllum fundum sem fram fara innan Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2017. Markmiðið er að greina sameiginleg áhugasvið og samhæfa starfsemi sem miðar að því að hlustað verði á norræn sjónarmið við ákvarðanatöku á vettvangi ESB.

 

Lesið formennskuáætlun Noregs hér: