Samkeppnin Nordic Built Cities Challenge er hafin

07.10.15 | Fréttir
Harpa bygningen i Reykjavik
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Sex norrænar borgir hafa ýtt úr vör samkeppni til að leysa þéttbýlisáskoranir sínar.

Ert þú í fararbroddi á einhverju eftirfarandi sviða: tæknimálum, byggingamálum, upplýsinga- og samskiptatækni, borgarskipulagi, arkitektúr, flutningamálum, húsnæðismálum, málefnum snjallra borga eða orkumálum – eða brennurðu einfaldlega fyrir þéttbýlisþróun?

Sex norrænar borgir, sem taka þátt í samkeppninni Nordic Built Cities Challenge, leita nú nýskapandi lausna þinna við þéttbýlisáskorunum sínum:

• Kera-áskorun S Group – lausnir hringrásarhagkerfis til að styðja umbreytingu Kera-svæðisins úr iðnaðaðarsvæði í svokallað „20 mínútna hverfi“ (Espoo, Finnlandi)
• Kársneshöfn – vistvæn líflína (Kópavogur, Íslandi)
• Sege park-svæðið – samnýting úrræða fyrir hagkvæman lífsstíl sem tekur tillit til loftslagsins (Málmey, Svíþjóð)
• Skýfall og menning – endurnýjun Hans Tavsens almenningsgarðsins og Korsgade (Kaupmannahöfn, Danmörku)
• Snjallt, grænt og þéttbýlt – nýju lífi blásið í samgöngumiðstöðina á Trygve Lies-torginu (Ósló, Noregi)
• Lóðrétta áskorunin – hvernig byggja skal nýskapandi og sjálfbær heimili fyrir fjölskyldur í miklum bratta (Runavík, Færeyjum)

Þessi sex þéttbýlisþróunarverkefni leita nú þverfaglegra teyma sem geta fundið nýskapandi lausnir fyrir borgarrými þeirra. Allt að fjórir komast í úrslit úr hverri keppni. Viðkomandi fá 300 þúsund n.kr. og möguleika á að þróa lausn sína frekar í samstarfi við aðstandanda verkefnisins.

 

Verðlaunasamkeppni Nordic Built Cities Challenge (NBCCA)

Norræna nýsköpunarmiðstöðin mun bjóða úrslitakeppendunum að skrá sig til verðlaunasamkeppni Nordic Built Cities Challenge (NBCCA), þar sem verðlaunaféð nemur 1.200.000 n.kr.

Mikilvægur þáttur í NBCCA er að hvetja til samstarfs þvert á fagsvið og landamæri Norðurlanda.

Í verðlaunasamkeppni Nordic Built Cities Challenge munu teymi sem hafa meðlimi frá fleiri en einu Norðurlandi hljóta styrk að upphæð 40 þúsund n.kr. Auk þess munu teymi sem hafa námsmann, sprota eða félagslegan frumkvöðul innanborðs hljóta styrk að upphæð 20 þúsund n.kr.

Til að greiða fyrir myndun þverfaglegra norrænna teyma býður Norræna nýsköpunarmiðstöðin mögulegum þátttakendum til viðburðar með yfirskriftinni Nordic Matchmaking í Arlanda, Stokkhólmi, 5. nóvember 2015. Um er að ræða kjörið tækifæri til að hitta fólk með svipuð áhugamál og mögulega samstarfsaðila og fá innblástur. Þátttaka í viðburðinum er ókeypis og þátttakendum býðst sá möguleiki að fá ferðakostnað sinn endurgreiddan.

 

Um Nordic Built Cities

Samkeppnin Nordic Built Cities Challenge er hluti af Nordic Built Cities, sem er vitaáætlun norrænu samstarfsáætlunarinnar um nýsköpun og viðskiptastefnu 2014–2017. Danmörk leiðir áætlunina og hefur umsjón með framkvæmd hennar í samstarfi við hinar fjórar norrænu ríkisstjórnirnar, Norrænu ráðherranefndina og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina. Norræna nýsköpunarmiðstöðin hefur einnig umsjón með hönnun og rekstri áætlunarinnar Nordic Built Cities.