Samkomulag í makríldeilunni ófullnægjandi

17.03.14 | Fréttir
Sjúrður Skaale
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Þann 13. mars 2014 gerðu Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyingar samkomulag um makrílveiði á árinu og skiptu með sér veiðikvóta sem nemur rúmri milljón tonna af makríl. Þetta getur orðið til þess að veiði á makríl 2014 verði langt yfir ráðlögðu aflamarki Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), en það væri afar óheppilegt að mati Norðurlandaráðs.

„Það er miður að norræn ríki skuli gera samkomulag sín á milli og við Evrópusambandið, án aðkomu annarra norrænna ríkja. Í versta falli hamlar það því að settum markmiðum um sameiginlega fiskveiðistjórnun og sjálfbærar veiðar verði náð, auk þess að viðhalda og kynda undir þessu ágreiningsmáli á Norðurlöndum,“ segir Sjúrður Skaale, talsmaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs

Engin lausn

Deilan um makrílinn kom fyrst á dagskrá Norðurlandaráðs árið 2010. Að henni hafa komið Evrópusambandið, Grænlendingar, Færeyingar, Íslendingar og Norðmenn.   Norðurlandaráð hefur óskað eftir langtímalausn sem endurspeglaði meginregluna um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.  Ráðið hefur ennfremur óskað eftir sterkari líffræðilegum og lagalegum rökum til að byggja á kvótaskiptingu sameiginlegra fiskistofna strandríkjanna.

„Samkomulagið frá 13. mars er jákvætt á ýmsan hátt. Það hefur rutt brautina fyrir tvíhliða samkomulag um sjávarútvegsmál milli Noregs og ESB, og mun vonandi einnig opna á samkomulag strandríkja um síldveiðar og tvíhliða samkomulag milli Færeyja og Noregs/ESB, auk þess að aflétta refsiaðgerðum ESB af Færeyjum. Eftir stendur þó mikilvæg áskorun um gerð langtímasamkomulags sem tryggja myndi sjálfbæra nýtingu makrílstofnsins og sem öll strandríkin gætu skrifað undir,“ segir Sjúrður Skaale.

Óskar eftir skýrari umgjörð

„Þó samkomulagið kunni að hafa eitthvað gott í för með sér stendur það ekki undir væntingum Norðurlandaráðs, og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd hefur leitina að viðunandi lausn í þessu máli því enn í forgangi,“ segir Sjúrður Skaale lögþingsmaður frá Færeyjum og varaformaður nefndarinnar að lokum.

Norðurlandaráð telur makríldeiluna sönnun þess að núverandi regluverki um fiskveiðistjórnun í Norðaustur-Atlantshafi sé ábótavant. Samningar um fiskveiði sem gerðir hafa verið til þessa hafa ekki tekið mið af þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í lífríki sjávar.  Því kallar ráðið eftir nýrri hugsun í þróun sjálfbærra lausna á fiskveiðistjórnun sameiginlegra fiskistofna.