Samstarf eflir sjálfbæra viðskiptaþróun á norðurslóðum

24.01.17 | Fréttir
Nordiskt businesseminarium Arctic frontiers 2017
Photographer
Siri Svendsen/regjeringen.no
Í norrænu samstarfi býr vilji og kraftur til að beita sér fyrir sjálfbærri þróun í viðskiptum og nýsköpun á norðurslóðum. Þetta var niðurstaða pallborðsumræðna milli norrænna og alþjóðlegra aðila úr röðum samfélagsmála og atvinnulífs, sem fram fór á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø þann 23. janúar.

Tara Sweeney, formaður Efnahagsráðs norðurslóða, vakti máls á þeim áhrifum sem svæðisbundið samstarf milli norrænu landanna hefur haft á hagvöxt á heimskautasvæðum.

„Ef við vinnum saman og setjum okkur sameiginleg markmið getum við orðið virkir þátttakendur og skapað þá þróun sem við viljum sjá,“ sagði Sweeney.

Hlutverk og möguleikar nærsamfélaga voru ofarlega á baugi í umræðunum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten, sagði að helstu styrkleikar norðurslóða – náttúran og auðlindir hennar – sköpuðu mikla möguleika á hagvexti og sjálfbærri þróun á staðbundna vísu, þar sem framfarir yrðu gjarnan með fulltingi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  

„Undanfarin ár hefur ráðherranefndin lagt aukna áherslu á að greiða fyrir hagvexti á norðurslóðum. Við sjáum möguleika í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í ferðaþjónustu, í lífhagkerfinu, matvælum og matarmenningu, skapandi greinum og grænum hagvexti á norðurslóðum,“ sagði Høybråten.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, vakti máls á nýsköpunarsóknarfærum bláa hagkerfisins, einkum hvað varðar líftækni í matvælaframleiðslu.

„Hér er afar mikilvægt að gleyma ekki staðbundnum möguleikum til nýsköpunar,“ sagði Sveinn.

Sóknarfæri fyrir sjálfbærnimarkmiðin

Björn Haugland, sjálfbærniráðgjafi hjá DNV GL Group, nefndi hin 17 sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna sem hugsanlegan vettvang til nýsköpunar, þar sem Norðurlöndum gæfist færi á að taka forystuna og verða það svæði sem umheimurinn liti til.

„Á Norðurlöndum ríkir mikið traust, og þar sem traust ríkir á nýsköpun upp á pallborðið. Við getum aukið samstarfið með því að greina styrkleika okkar á sviðum þar sem við getum bætt hvert annað upp,“ sagði Haugland.  

Nauja Bianco, ráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurslóða, sagði að það kynni að hafa góð áhrif á viðskiptaumhverfi á norðurslóðum að beina sjónum að austri og vestri, í stað norðurs og suðurs.

„Sem stendur snýst umræðan um annars vegar höfuðstaðina í suðri og hins vegar dreifðar byggðir í norðri, en þess í stað mætti greina svæðis- og staðbundið samstarf milli austurs og vesturs,“ sagði Bianco. Orð hennar hlutu hljómgrunn hjá Niklas Nordström, borgarstjóra Luleå í Svíþjóð, sem lagði áherslu á mikilvægi þess að mynda bandalög milli aust- og vestlægra borga og fræðasamfélaga.

Óskað eftir aukinni pólitískri áherslu á ferðaþjónustu

Daniel Skjeldam, forstjóri skipafélagsins Hurtigruten, óskaði eftir því að sjálfbær ferðaþjónusta hlyti aukið vægi á vettvangi hins opinbera norræna samstarfs.

„Ég vil að Norðurlönd verði þekkt á alþjóðavettvangi fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu,“ sagði hann.

Samstarfsmöguleikar norrænu landanna á sviði ferðaþjónustu voru einnig til umræðu hjá Arne Trengereid, prófessor við háskólann í Tromsø.

„Samstarf er mikilvægt, og það er samkeppnisandi einnig upp að vissu marki. Við höfum séð afar góðan árangur þegar löndin hafa keppt sín á milli um t.d. markaðssetningu á norðurljósatengdri ferðaþjónustu,“ sagði Trengereid. 

Skýrsla með kortlagningu viðskiptamöguleika á norðurslóðum verður unnin á árinu 2017 í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar og Efnahagsráðs norðurslóða. Á árinu mun ráðherranefndin einnig leggja lokahönd á nýja norræna samstarfsáætlun fyrir norðurslóðir, þar sem sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna verða þverlægt þema.