Samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur-Rússland haldið áfram

04.02.16 | Fréttir
St. Petersburg
Photographer
Merete Bendiksen/norden.org
Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur-Rússland verður tekið upp á ný. Grundvöllur og markmið samstarfsins eru þau sömu og áður, en skipulag þess verður með öðrum hætti.

Eftir að rússneska dómsmálaráðuneytið ákvað í janúar 2015 að skilgreina skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar í Sankti Pétursborg og Kalíníngrad sem „erlenda útsendara“ hefur samstarfi Norðurlanda og Norðvestur-Rússlands verið haldið í lágmarki. Á fundi sínum 3. febrúar 2016 ákváðu samstarfsráðherrar Norðurlanda að halda samstarfinu áfram. Starfsemin á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Sankti Pétursborg verður framvegis í lágmarki og skrifstofan verður ekki tengd fyrirhuguðu samstarfi.

Haustið 2015 skipaði Norrænu ráðherranefndin vinnuhóp með norrænum sérfræðingum í málefnum Rússlands sem kannaði möguleika á að halda samstarfinu áfram. Niðurstaða hópsins var að áfram væru góðar forsendur fyrir samstarfi, einkum hvað varðar menntun og rannsóknir, blaðamannasamstarf og þingmannasamstarf. Einnig verður leitast við að setja af stað ný verkefni með áherslu á stuðning við borgaralegt samfélag og mannréttindi í Rússlandi, markaðssetningu norrænna gilda, stuðning við umhverfis-, orku-, loftslags- og skipulagsmálasamstarf og við verkefni á sviði heilbrigðismála.

Nýja norræna samstarfsáætlunin er sveigjanleg og opin hvað varðar samstarfsaðila, lengd og umsjónaraðila verkefna. Lagt verður mat á nýju áætlunina og skipulag hennar árið 2017.

Mikill metnaður er áfram lagður í samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur-Rússland og lagðir verða verulegir fjármunir í það.

„Samstarfið við Norðvestur-Rússland er áfram mjög mikilvægt fyrir Norðurlönd, og samstarfsáætlunin er skýrt merki um það,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Rússnesk yfirvöld sem hafa með málið að gera hafa verið upplýst um fyrirætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar.