Document Actions

Sporna verður við rányrkju á auðlindum norðurskautssvæðisins

Olíuboranir ógna viðkvæmu umhverfi norðurskautsins. Því verða norrænu ríkin að tryggja betri aðferðir þegar alþjóðlegir orkurisar hefja leit að hráefnum. Norðurlandaráð krefst þess að ríkisstjórnir Norðurlanda taki málið upp í Norðurskautsráðinu til þess að koma á lagalega bindandi samningi á þessu sviði.

23.03.2012

„Reynslan sýnir að umhverfisslys í tengslum við olíuvinnslu geta haft mjög alvarlegar afleiðingar og við verðum að gera allt sem sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir slys á norðurskautssvæðunum”, segir Ann Kristine Johansson, (S- Svíþjóð), formaður umhverfisnefndar Norðurlandaráðs.

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Norðurskautsráðið vinnur að því að semja tillögu að lagalega bindandi samningi um hreinsun vegna umhverfisslysa á norðurskautinu. En hvers vegna bíða þar til slys verður, spyr Norðurlandaráð? Ráðið vill ganga lengra með lagalega bindandi samningi sem helst á að koma í veg fyrir að slys verði í tengslum við boranir á hafi úti.

...hvers vegna bíða þar til slys verður, spyr Norðurlandaráð? Ráðið vill ganga lengra með lagalega bindandi samningi, til að koma í veg fyrir að slys verði í tengslum við boranir á hafi úti.

Fjölþjóðleg olíufyrirtæki hafa þegar hafið samstarf um þróun öruggari tækni og þessa þróun þarf að efla. En ekki er nægilegt að tryggja að besta fáanlega tækni verði notuð, heldur verða fyrirtækin að tryggja að öll vinnsla fari fram á sjálfbæran hátt, að mati umhverfis- og atvinnulífsnefnda Norðurlandaráðs.

„Reynslan sýnir að umhverfisslys í tengslum við olíuvinnslu geta haft mjög alvarlegar afleiðingar og við verðum að gera allt sem sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir slys á norðurskautssvæðunum. Í dag ráða olíufyrirtækin ekki yfir nægilega öruggri tækni og við verðum að tryggja að þeir hefji ekki boranir fyrr en tæknilegar forsendur eru í lagi”, segir Ann Kristine Johansson, (S- Svíþjóð), formaður umhverfisnefndar Norðurlandaráðs.

„Þetta er því tilvalið mál fyrir Norðurskautsráðið þar sem Bandaríkin og Rússland eru aðilar. En ef norrænu ríkin leggjast á eitt til að tryggja umhverfisvænni vinnslu, er miklu meiri möguleiki á að það takist”, segir hún ennfremur.

Norðurlöndin verða að þrýsta á

Samningur milli ríkjanna átta í Norðurskautsráðinu um hreinsun eftir mengunarslys er þar að auki langt frá því að vera tilbúinn og því eru ríkisstjórnir Norðurlandanna hvattar til að tryggja nægilegt fjármagn vegna slíks samnings.

Norðurlandaráð vill halda umræðufund um málið seinna á árinu og hvetur Norrænu ráðherranefndina til að taka þátt í samstarfi um málið. Umhverfisnefndin og atvinnulífsnefndin vilja einnig skilgreina sérstaklega viðkvæm svæði þar sem olíu- og gasvinnsla ætti ekki að fara fram. Nefndirnar munu einnig fjalla um það mál síðar á árinu.

Norðurlandaráð fundaði 22. - 23. mars í Reykjavík og fjallaði um málefni norðurskautsins. Fjallað var um öryggi til sjós og félagsleg mál, auk nýtingu auðlinda. Ráðið vill þrýsta á að mörkuð verði sameiginleg stefna um norrænt samstarf á norðurskautssvæðinu almennt, ekki síst til að tryggja að rödd norrænu ríkjanna heyrist í Norðurskautsráðinu.

Tengiliðir

Tryggvi Felixson
Sími +45 29 69 29 37
Netfang tfe@norden.org