Sveigjanlegra og opnara samstarf á samþættasta svæði veraldar

06.09.16 | Fréttir
Samarbetsministrarna i Köpenhamn, september 2016
Photographer
Anna Rosenberg/norden.org
Annar hluti þess nútímavæðingarstarfs sem farið hefur fram á vettvangi norræns samstarfs undanfarin ár er nú að hefjast, með lista yfir aðgerðir sem miða að því að virkja bæði almenning og fulltrúa atvinnulífsins í meiri mæli.

Á grundvelli tillögu framkvæmdastjórans samþykktu norrænu samstarfsráðherrarnir metnaðarfulla áætlun um umbætur og nútímavæðingu á fundi sínum á þriðjudag. Markmiðið er að þróa norrænt samstarf til að auka enn frekar vægi þess fyrir fyrir norrænu ríkisstjórnirnar, atvinnulíf í löndunum og borgaralegt samfélag á svæðinu í heild. 

Eitt af grundvallarmarkmiðum umbótanna er að gera samstarf ráðherranna sveigjanlegra og auka möguleika til þess að bregðast skjótt við samfélagslegum breytingum. Þannig verður unnt eftir þörfum að stofna nýjar ráðherranefndir tímabundið til að sinna aðkallandi samfélagsverkefnum, og fjárhagsáætlunarferlinu verður breytt með það fyrir augum að auðveldara verði að stofna til nýrra verkefna. 

Þá vilja ráðherrarnir einnig efla áhuga á norrænu samstarfi með því að auka möguleika almennings til áhrifa á starfið, m.a. með því að koma á stöðugum samræðum við hið borgaralega samfélag.

Samfara því á einnig að auka tengslin við atvinnulífið og virkja fulltrúa iðnaðar og atvinnulífs til samstarfs á viðeigandi sviðum. 

Samstarfsráðherrarnir tóku frumkvæði að áframhaldandi nútímavæðingarstarfi á fundi sínum í Reykjavík haustið 2015.

„Ég er afar ánægð með það starf sem unnið hefur verið og þær tillögur sem við höfum nú tekið ákvarðanir um,“ segir formaður samstarfsráðherranna, hin finnska Anne Berner. „Það er mikilvægt að bæði almenningi og stjórnmálafólki þyki Norræna ráðherranefndin eiga erindi,“ bendir hún á. Til að svo megi verða þurfi umgjörð starfsins að verða sveigjanlegri en hún hefur verið, og til þess fallin að greiða fyrir aukinni forvirkni. 

Einn liður í umbótunum mun felast í því að Norræna ráðherranefndin stofni sérstaka greiningardeild við skrifstofu sína í Kaupmannahöfn, sem samstarfsráðherrarnir fögnuðu.