Þannig á að stöðva flökkulæknana – pólitískt samkomulag um norræna skrá

27.10.15 | Fréttir
Sonja Mandt (A)
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Koma ber á fót norrænni skrá yfir varasama flökkulækna – ef svo fer að viðvörunarkerfi ESB reynist ekki duga til. Þetta samþykkti velferðarnefndin á þriðjudagsmorgun.

„Við komumst ekki lengra með málið,“ segir Sonja Mandt, þingkona í velferðarnefnd Norðurlandaráðs, sem fundaði áður en þing ráðsins var sett.

Upp á síðkastið hefur ítrekað verið vakin athygli á þeim vanda, m.a. í danska ríkisútvarpinu, að læknar sem hafa framið læknamistök flytji starfsemi sína á milli Norðurlandanna.

Misbrestur hefur verið á því að löndin skiptist á upplýsingum um lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur hlotið áminningu eða misst starfsleyfi sitt í einhverju landanna.

Þá geta slíkir einstaklingar haldið starfsemi sinni áfram óáreittir í öðru landi.

Vilji fyrir hendi síðan 2010

Norðurlandaráð hefur fylgst lengi með flökkulæknunum og þeirri ógn sem sjúklingum er búin af þeirra völdum. Frá árinu 2010 hafa þingmenn ráðsins hvatt Norrænu ráðherranefndina til að koma á fót norrænni, rafrænni skrá yfir heilbrigðisstarfsfólk sem hefur valdið sjúklingum skaða með mistökum.

Ráðherranefndin hefur ekki samþykkt þá hugmynd, en hefur þess í stað beitt sér fyrir virkari upplýsingamiðlun innan ramma viðvörunarkerfis ESB; IMI eða International Market Information System.

Kerfið gerir löndum innan ESB og EES kleift að hafa eftirlit með því að heilbrigðisstarfsfólk hafi tilskilin réttindi til að stunda starfsemi sína í löndum ESB.

Ráðherranefndin hefur jafnframt unnið að breytingu á Arjeplog-samningnum, sem var gerður fyrir rúmum 20 árum síðan og gerir ákveðnum heilbrigðisstéttum kleift að starfa þvert á landamæri Norðurlandanna.

Breytingin felur í sér að reglur tilskipunar ESB um viðurkenningu á starfsréttindum skuli nú gilda í öllum Norðurlöndunum. Þetta myndi jafnframt þýða að Norðurlöndin gætu nýtt sér viðvörunarkerfið IMI.

Ráðherranefndin vill að víðtækur stuðningur þjóðþinganna við breytinguna á Arjeplog-samningnum sé fyrir hendi, og hefur hún því lagt tillöguna fyrir þing Norðurlandaráðs.

Grænt ljós á breytinguna

Velferðarnefnd gaf grænt ljós á breytinguna á Arjeplog-samningnum í Reykjavík á þriðjudag. Nefndin vill þó láta meta það hvort kerfi ESB, IMI, sé nægilega skilvirkt til að tryggja öryggi sjúklinga. Matið á að fara fram þegar IMI hefur verið í notkun í tvö ár.

Komi þá á daginn að kerfið veiti ekki nægilega vernd skulu Norðurlöndin íhuga að koma á fót norrænni rafrænni skrá, segir í ákvörðun velferðarnefndar.

„Ráðherranefndin vill ekki vinna áfram með hugmyndina og hefur heldur ekki útskýrt hvers vegna hún telur slíka norræna skrá ekki góða hugmynd, en við trúum á þessa hugmynd og höldum fast við hana,“ segir Sonja Mandt.

Norðurlandaráð tekur ákvörðun í málinu á morgun, miðvikudag.

 

 Hér er málsskjalið:

 http://www.norden.org/sv/nordiska-raadet/aerenden/b-304-velferd