Þingmenn þurfa að láta til sín taka í loftslagsmálum

12.12.14 | Fréttir
Christina Gestrin
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Það eru ekki bara ríkisstjórnir heimsins sem koma til loftslagsviðræðna í Perú. Þing og þingmenn hafa einnig mikilvægu hlutverki að gegna í stefnumótun í loftslagsmálum.

Í tilefni af leiðtogafundinum um loftslagsmál í Líma í Perú stóð Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) fyrir ráðstefnu í þinghúsinu í Líma þar sem 250 þingmenn frá 100 löndum tóku þátt. Á ráðstefnunni var samþykkt tæpitungulaus ályktun um að loftslagsbreytingarnar ógni lífi á jörðinni og framtíð mannkyns. Loftslagsbreytingarnar eru raunverulegar og Alþjóðaveðurfræðistofnunin tilkynnti á ráðstefnunni að vísindalegar rannsóknir sýni skýrt að heimurinn stendur frammi fyrir mjög erfiðum loftslagsskilyrðum ef ekki tekst að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

– Menn þurfa að vera meðvitaðri um það hversu mikilvægu hlutverki þjóðþing heimsins gegna varðandi það að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar. Ef takast á að gera hnattrænan, skuldbindandi loftslagssamning í París á næsta ári verða þing landanna að leggja sitt af mörkum. Þau þurfa að staðfesta samninginn og setja þau lög sem þarf til að hann komist til framkvæmda, segir Christina Gestrin, þingmaður í Norðurlandaráði og formaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, sem var meðal þátttakenda á ráðstefnunni.

Gestrin telur að þingmenn sem fylgjast með loftslagsviðræðunum gegni mjög mikilvægu hlutverki.

– Eitt er að við þurfum að fylgjast með því að ríkisstjórnin geri það sem hún hefur lofað að gera. Reynslan sýnir að mikilvægum alþjóðasamningum er ekki alltaf fylgt eftir þegar ráðherrarnir koma heim aftur. Annað er að við þurfum að útskýra fyrir kjósendum hversu alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytingarnar geta haft og hver vegna nauðsynlegt kann að vera að grípa til aðgerða sem geta verið óvinsælar til skamms tíma. Við náum ekki markmiðum okkar í loftslagsmálunum nema almenningur standi að baki okkur, segir Christine.

Á ráðstefnu Alþjóðaþingmannasambandsins var lögð áhersla réttlæti í loftslagsbaráttunni. Reynslan af loftslagsbreytingunum fram að þessu sýnir að það er fátækt fólk sem verður fyrir mestum búsifjum. Þetta fólk á jafnframt mjög litla sök á loftslagsvandanum.

 

– Tveir þættir gegna lykilhlutverki í stefnumótun í loftslagsmálum. Annar er að við þurfum að styrkja samfélög okkar þannig að þau geti tekist á við öfgaveður, ekki síst þá hópa samfélagsins sem standa höllum fæti. Hinn þátturinn er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að komast hjá því að hættulegustu og öfgafyllstu loftslagsbreytingarnar verði að veruleika. TIl skamms tíma hefur það í för með sér aukin útgjöld, til lengri tíma sparast peningar með því að komið er í veg fyrir alvarlegan skaða. Við verðum að sjá til þess að verði þeir ríku sem beri stærstan hluta kostnaðarins, ekki þeir fátæku. Og þar á ég ekki við rík og fátæk lönd, heldur ríka og fátæka þjóðfélagshópa, segir Christina Gestrin að lokum.

 

Nálgast má ályktun Alþjóðaþingmannasambandsins á slóðinni http://www.ipu.org/splz-e/cop20.htm