Tilkynning um nýjan forstjóra Norræna hússins

18.09.14 | Fréttir
Daninn Mikkel Harder Munck-Hansen (f. 1967) mun taka við stöðu forstjóra Norræna hússins 1. janúar 2015. Það var einróma álit stjórnar Norræna hússins og framkvæmdastjórnar Norrænu ráðherranefndarinnar að tilnefna hann til starfsins.

„Ég hlakka til þess að takast á við það verkefni að byggja upp sterkan grunn fyrir norræn samskipti, samræðu og samvinnu, og þróa og verða hluti af íslensku menningarlífi, segir Mikkel Harder Munck-Hansen um væntingar sínar til hins nýja starfsvettvangs.

Mikkel Harder Munck-Hansen hefur síðast gengt stöðu forstjóra Miðstöðvar fyrir menningu og þróun (Center for Kultur og Udvikling) en það er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir danska utanríkisráðuneytið. Áður hefur hann verið stjórnandi Kvikmyndahátíða Kaupmannahafnar (De Københavnske Filmfestivaler), 2008-2009; yfirmaður leikaradeildar Hins Konunglega leikhúss (Det Konglige Teater), 2003-2008; yfirmaður útvarpsleikhúss DR, 2000-2003; Leikhússtjóri Kaleidoskop, 1994-2000. Síðan 2011 hefur Mikkel Harder Munck-Hansen setið í stjórn Dansehallerne, þá útnefndur af menningarráðuneyti Danmerkur.

Staða forstjóra Norræna hússins var auglýst laus til umsóknar nú í vor og sóttu 57 aðilar um starfið. Max Dager, fráfarandi forstjóri Norræna hússins, hefur gengt starfinu síðan 1. janúar 2007.

 Forstjóri Norræna hússins er ráðinn til fjögurra ára í senn með möguleika á framlengingu samnings um fjögur ár til viðbótar.