Trump til umræðu á þemaþingi Norðurlandaráðs

16.03.17 | Fréttir
Britt Lundberg
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Donald Trump og þróun mála í Bandaríkjunum verða til umræðu þegar Norðurlandaráð kemur saman til fundahalds og þemaþings í sænska þinginu í Stokkhólmi 3.–4. apríl. „Þróun mála í Bandaríkjunum hefur einnig áhrif hér á Norðurlöndum og það er mikilvægt að við ræðum afstöðu okkar til hennar,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg.

Norden och USA – nya förutsättningar er yfirskrift þemaumræðnanna, sem fara fram á öðrum degi fundahalda, þriðjudaginn 4. apríl. Um það leyti mun Donald Trump hafa gegnt embætti forseta Bandaríkjanna í tæpa þrjá mánuði og umheimurinn því fengið skýrari hugmynd um það sem koma skal í valdatíð hans.

Þingmenn Norðurlandaráðs fá nú tækifæri til að ræða þróun mála í Bandaríkjunum í fyrsta sinn síðan Trump var vígður í embætti. Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, hlakkar til spennandi umræðna um viðfangsefni sem varðar allan heiminn.

Sótt er að alþjóðlegu samstarfi um þessar mundir og það þýðir að við í Norðurlandaráði verðum að endurskoða starfshætti okkar. Nú er tækifærið til að láta meira að okkur kveða og sýna fram á raunverulegt vægi norræns samstarfs.

„Fyrstu mánuðir Trumps í embætti hafa einkennst af óvissu um hverju hann vill áorka með stefnu sinni og skilaboðin hafa verið dálítið misvísandi. Þó er víst að framundan eru ýmsar áskoranir og aukin óvissa. Sótt er að alþjóðlegu samstarfi um þessar mundir og það þýðir að við í Norðurlandaráði verðum að endurskoða starfshætti okkar. Nú er tækifærið til að láta meira að okkur kveða og sýna fram á raunverulegt vægi norræns samstarfs,“ segir Britt Lundberg.

  • Hér má finna texta eftir Flemming Splidsboel Hansen sérfræðing (seniorforskare), þar sem rýnt er í bakgrunn umræðunnar um Bandaríkin/Trump og Norðurlönd.

Opið fjölmiðlum

Þemaumræðurnar fara fram í Förstakammarsalen í sænska þinginu og er ráðgert að þær standi yfir í eina og hálfa klukkustund, frá kl. 10:00 til 11:30. Umræðan og þemaþingið í Förstakammarsalen þann 4. apríl er opið fjölmiðlum.

Norðurlönd og Bandaríkin verða til umræðu víðar en í þemaumræðunum. Hinar fjórar nefndir Norðurlandaráðs, auk forsætisnefndar, munu einnig takast á við viðfangsefnið frá ólíkum hliðum á fundum sínum daginn fyrir þemaumræðurnar.

  • Hér eru hagnýtar upplýsingar fyrir fjölmiðla.

Fjöldi þingmannatillaga til umfjöllunar

Að þemaumræðum þriðjudagsins loknum heldur þingið áfram með umfjöllun um þingmannatillögur; pólitískar tillögur sem þingmenn Norðurlandaráðs hafa lagt fram. Til umfjöllunar verða meðal annars þingmannatillaga um úttekt á rússnesku gasleiðslunni Nord Stream 2, tillaga um starfshóp í málefnum innflytjenda hjá Norðurlandaráði og tillaga um bann við örplasti í snyrtivörum.

Þemaþinginu verður slitið þann 4. apríl kl. 15.

  • Dagskrá þemaþingsins er aðgengileg hér.
  • Hér er hægt að nálgast snjallforrit með upplýsingum um þingið.