Umboðsmenn barna á Norðurlöndum koma saman

27.05.16 | Fréttir
Nordiska barnombudsmän
Photographer
Anna Rosenberg
Umboðsmenn barna á Norðurlöndum komu saman í Kaupmannahöfn til að ræða réttindi barna. Eftir fundinn er von á sameiginlegri yfirlýsingu þeirra um fylgdarlaus börn á flótta. Á hinum norræna fundi ársins 2016 sem fjallaði um réttindi barna var ennfremur rætt um Barnasáttmálann sem löggjöf og leiðir til að tryggja þátttöku barna.

Norðurlönd eiga að vera besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni. Þetta kemur fram í nýrri stefnu NORDBUK, nefndar Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni barna og ungmenna.

Hver er besta leiðin fyrir ríki Norðurlanda til að tryggja réttindi barna og ungmenna?

Í pallborðsumræðum umboðsmannanna gafst fundargestum kostur á að heyra um helstu viðfangsefnin í hverju landi og þróttinn sem býr í norrænu samstarfi.

Stefna sniðin að veruleika barna


Aviâja Egede Lynge, talsmaður barna á Grænlandi, greindi frá helsta áskorun þar í landi en hún er sú að stefna í málefnum barna og ungmenna sé sniðin að raunverulegum aðstæðum barna.

„Stefnumótun verður að taka mið af hinum ýmsu menningarheimum. Grænland er gríðarlega stórt land þar sem fámennar byggðir eru dreifðar. Þar hafa svæði hvert sína menningu. Tilkynna verður um ofbeldi ef við eigum að geta brugðist við því. Í fámennum byggðarlögum er ekki hefð fyrir því að kæra það sem miður fer. Fullorðnir hylma hver yfir með öðrum. Við verðum að finna lausnir sem henta staðbundnum aðstæðum.

„Fullorðnir vita heldur ekki hvað er best“

Umboðsmaður barna í Svíþjóð tekur fyrir eitt rannsóknarsvið á ári hverju. Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslu sem afhent er ríkisstjórninni.
„Við byrjum hverja könnun á því að kalla þau til leiks sem málið varðar, það er börn og ungmenni,“ sagði Fredrik Malmberg, umboðsmaður barna í Svíþjóð. Ársskýrslan að þessu sinni, „Respekt“ (Virðing), fjallar um börn með fötlun. Þar kemur fram að fötluð börn eru búin að fá sig fullsödd af viðhorfinu „að við eigum svo bágt“. „Þau kæra sig ekki um að fá á sig stimpil, að litið sé á þau sem fórnarlömb eða þá að þau séu ofvernduð.“

Að sögn Fredriks Malmberg óska börnin sem rætt var við í skýrslunni eftir upplýsingum, tækifærum til þátttöku og lífi í öryggi. Þau vilja losna undan því að brotið sé á þeim og þau beitt ofbeldi. Hann vitnaði í eina rödd skýrslunnar, en það er Moa sem segir:
„Börn vita ekki kannski alltaf hvað þeim er fyrir bestu. En fullorðnir vita það heldur ekki. Ég held að það verði að vera einhvers konar samtal í gangi.“

Barnasáttmálinn í lögum


Norðmenn lögleiddu Barnasáttmálann á árinu 2003. Hvernig hefur löggjöfin haft áhrif á réttindi barna í Noregi?

Anne Lindboe, umboðsmaður barna í Noregi, greindi áheyrendum frá þeim breytingum sem orðið hafa:
„Barnasáttmálinn hefur haft mikil áhrif. Ekki aðeins í orði eins og sumir halda. Við tökum eftir því að umfjöllun fjölmiðla hefur breyst, fleiri þekkja til Barnasáttmálans og starf sem snýr að réttindum barna er þróttmeira en áður.“

Norrænt ákall væntanlegt


Per Larsen, formaður Barnaráðsins í Danmörku, vakti máls á börnum sem koma ein síns liðs:
„Straumur flóttafólks til Norðurlanda er gífurlegt viðfangsefni sem veldur því að kerfi okkar eru undir miklu álagi. En þegar barn birtist er það skylda okkar að sinna því vel. Niðurskurður bitnar illa á börnum og ekki tekst alltaf að tryggja rétt fylgdarlausra barna á skólagöngu og heilbrigðisþjónustu.“

Hamza Ibrahim, fulltrúi samtaka fylgdarlausra barna í Svíþjóð, lagði sömu spurningu fyrir alla umboðsmennina, það er hvort aðgerðaráætlanir liggi fyrir í löndunum varðandi fylgdarlaus börn á Norðurlöndum:


„Umboðsmenn barna á Norðurlöndum munu senda frá sér yfirlýsingu innan skamms um börn á flótta. Þar verður fjallað um sameiningu fjölskyldna, dvalarleyfi og sérlegt tillit til fylgdarlausra barna. Sameiginlegt ákall er væntanlegt,“ voru skilaboð Fredriks Malmberg, umboðsmanns barna í Svíþjóð.