Umhverfisráðherra Frakklands: „Norðurlöndin ryðja brautina í loftslagsmálum“

13.10.15 | Fréttir
Á viðburðinum „Norræn skilvirkni“ (Nordic Efficiency) sem fram fór í París þann 13. október sagði Ségolène Royal, umhverfisráðherra Frakka, að Norðurlöndin ryddu brautina að samfélagsgerð þar sem jafnvægi ríkti í kolefnisútblæstri. Orkumálaráðherra Danmerkur heitir traustum stuðningi Norðurlanda við gerð loftslagssamnings á COP21.

Ségolène Royal, umhverfisráðherra Frakka og einn af gestgjöfum loftslagsviðræðna Sameinuðu þjóðanna á COP21 í desember næstkomandi, segir Norðurlöndin nýskapandi brautryðjendur í loftslagsmálum sem veiti öðrum innblástur.

„Marghliða samstarf eins og Norðurlöndin eiga sín á milli er þýðingarmikið, eigi samningar að nást á COP21. Norðurlöndin ryðja brautina að jafnvægi í kolefnisútblæstri til framtíðar og eru frábært fordæmi fyrir önnur lönd,“ sagði Ségolène Royal á norrænum viðburði á World Efficiency í París þann 13. október.

Í aðdraganda COP21 tekur Norræna ráðherranefndin, í samstarfi við sendiráð Norðurlandanna í Frakklandi, þátt í ráðstefnunni World Efficiency með viðburði undir yfirskriftinni „Norræn skilvirkni“ (Nordic Efficiency).

Þar kynna alls 25 fyrirtæki frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð græna tækni undir yfirskriftinni „Nýjar norrænar loftslagslausnir“, en það er þema í starfsemi ráðherranefndarinnar og nær hápunkti sínum á COP21.

Norðurlöndin skuldbinda sig til aðgerða

Orkumálaráðherra Danmerkur tók einnig til máls á Norrænni skilvirkni, sem fulltrúi formennsku Dana í Norrænu ráðherranefndinni.

„Norðurlöndin munu vinna ötullega að metnaðarfullum samningi á COP21. Við verðum að grípa til aðgerða strax og við styðjum lofsverðar aðgerðir Frakka til að finna upp á öflugum lausnum,“ sagði Lars Christian Lilleholt á viðburðinum.

Á meginviðburðinum á Norrænni skilvirkni, „Nordic climate solutions to emission reductions“, var áhersla einkum lögð á orkuskilvirkni, en þar eru Norðurlöndin og mörg norræn fyrirtæki fremst í flokki á alþjóðavísu.

„Við verðum að mæta orkuþörf framtíðar með skynsamlegum hætti. Að mínu mati er það hagur allra að deila norrænum orkulausnum með öðrum löndum heims,“ bætti Lilleholt við.

Sjálfbær byggingastarfsemi og heildrænt borgarskipulag

Tveir þriðju hlutar allrar kolefnislosunar stafa af framleiðslu eða neyslu á orku, og nærri 40% losunar eru talin tengjast húsnæðis- og byggingamálum. Sjálfbærni í byggingastarfsemi og borgarskipulagi er því þýðingarmikil ef stefnt er að jafnvægi í kolefnislosun.

Með Nordic Built Cities, verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar sem Norræna nýsköpunarmiðstöðin hefur umsjón með, er ætlunin að takast á við þetta viðfangsefni frá norrænu sjónarhorni. Þetta var einnig í brennidepli á einum af hliðarviðburðum Norrænnar skilvirkni, þar sem áhersla var lögð á sjálfbæra byggingastarfsemi á norræna vísu.

„Við viljum skapa snjallar, lífvænlegar og sjálfbærar borgir, ekki aðeins á Norðurlöndum. Við vonumst einnig til þess að stuðla að því að hugmyndir okkar um heildrænt borgarskipulag án félagslegrar aðgreiningar nái útbreiðslu um allan heim,“ sagði Kristina Mårtensson, verkefnastjóri hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, stofnun sem Norræna ráðherranefndin hefur umsjón með.

Þegar eru uppi áætlanir um að byggja hús að hætti „Nordic Built“, m.a. í Kína, og nú þegar Nordic Built Cities Challenge, samkeppni um sveigjanlegar útflutningslausnir fyrir sjálfbært borgarskipulag, er nýhafin, eru mörg spennandi verkefni komin á rekspöl.

Norrænni skilvirkni lauk með hliðarviðburði um hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi með úrgangslausa framtíð fyrir augum, auk vinnustofu um leiðir til að fjármagna aukna skilvirkni í orkumálum.