Unga fólkið vill sameiginlegt norrænt átak í Sýrlandsmálum

09.09.15 | Fréttir
Norðurlandaráð æskunnar (UNR) kvartar yfir atorkuleysi Norðurlanda í tengslum við flóttamannavandann. „Þegar erfiðleikar steðja að í heiminum þarf að taka til hendinni. Þess vegna verða Norðurlöndin að leggja meira á sig við að taka á móti flóttamönnum og hælisleitendum sem koma til Norðurlanda,“ segir í yfirlýsingu frá ungu stjórnmálamönnunum sem samin var í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs í Ósló.

„Norðurlöndin þurfa að leggja sig sérstaklega fram við að hjálpa til. Norrænu löndin ættu einnig að ná samkomulagi um lágmarksflóttamannakvóta til þess að geta lagt meira af mörkum í sameiningu. Norðurlöndin ættu jafnframt að fara að fordæmi Þjóðverja og nota mannúðarákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar þannig að sýrlenskir flóttamenn séu ekki sendir aftur til þess lands þar sem þeir voru fyrst skráðir,“ segja ungmennin ennfremur í yfirlýsingunni.

Norðurlandaráðs æskunnar tekur fram að það sé fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórna Norðurlanda að taka á flóttamannavandanum, en að ríkisstjórnirnar ættu jafnframt að auðvelda hinu borgaralega samfélagi að aðstoða flóttamennina.

„Norðurlönd þurf að verða virkari“

Unga fólkið telur að Norðurlönd búi yfir styrk í utanríkismálum sem nýta eigi til að þrýsta á grannsvæði Sýrlands um að taka við flóttamönnum frá nágrannalöndunum þeirra til að draga úr álaginu á lönd á borð við Jórdaníu og Líbanon. Norðurlönd ættu jafnframt að taka virkan þátt í því að reyna að leysa deilumálin.
Norðurlandaráð æskunnar segir ennfremur að gera þurfi fólki kleift að komast með löglegum hætti til Norðurlanda. Það er hægt að gera með því að opna á það að hælisumsóknir megi berast frá löndum utan Evrópu, en einnig með því að kanna afleiðingar tilskipunar Evrópusambandsins 2001/51/EC.

Norðurlandaráð æskunnar er vettvangur pólitískra ungmennasamtaka á Norðurlöndum.