Vestnorræna ráðið fagnar 30 ára afmæli og sæmir forseta Íslands heiðursverðlaunum

12.08.15 | Fréttir
Vestnorræna ráðið hefur nú veitt heiðursverðlaun í fyrsta sinn. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var sæmdur verðlaununum. Heiðursverðlaunin voru veitt í tengslum við 30 ára afmælisfagnað Vestnorræna ráðsins, sem fram fór í Færeyjum þann 11. ágúst.

Með verðlaununum vill Vestnorræna ráðið heiðra einstaklinga sem lagt hafa mikið af mörkum í starfi ráðsins og unnið ötullega að málstað þess. Þessir þættir voru meðal annars hafðir til hliðsjónar þegar ákveðið var að veita Ólafi Ragnari verðlaunin í ár.

„Í krafti embættis þíns sem forseti Íslands og áhuga þíns á málefnum svæðisins hefur þú um áraraðir vakið athygli á málefnum vestnorrænu þjóðanna í viðræðum þínum við erlenda þjóðhöfðingja og forystumenn ríkisstjórna, atvinnulífs og vísinda, og á ráðstefnum þar sem málefni norðurslóða eru í brennidepli,“ sagði Bill Justinussen, formaður Vestnorræna ráðsins, þegar hann afhenti Ólafi verðlaunin.

Ólafur Ragnar er einn þeirra sem áttu frumkvæði að Arctic Circle, ráðstefnu um málefni norðurslóða, sem fer fram í þriðja sinn síðar á þessu ári.

„Ég þakka ykkur einlæglega og er djúpt snortinn; líka minnugur þess að sérhverjum heiðri fylgir ríkuleg ábyrgð. Löndin okkar þrjú og hafsvæðin í kringum okkur hafa saman öðlast nýja heimspólitíska stöðu og við erum vitni að sögulegum þáttaskilum, nýjum sessi norðurslóða í veröldinni. Þáttakendur Arctic Circle eru frá 40 löndum, þar á meðal Kína og Þýskalandi, sem ber vott um áhuga umheimsins á málefnum norðurslóða. Nú þurfum við að sýna okkur og sanna innan hinnar nýju heimsmyndar,“ sagði forsetinn.

Verðlaunagripurinn er gullnæla sem er í laginu eins og makríll.

„Fyrir okkur í Vestnorræna ráðinu táknar makríllinn samstarf aðildarlandanna þriggja, en það er afar mikilvægt nú um stundir. Eigi samkomulag að ríkja á vettvangi samstarfsins þurfa löndin að taka virkan þátt og sýna mikinn viljastyrk,“ sagði Bill Justinussen.

Nánari upplýsingar um Vestnorræna ráðið: www.vestnordisk.is