Við berum sameiginlega ábyrgð á því að Evrópa nái árangri

16.12.16 | Fréttir
Møte for arbeidsministre
Photographer
Niklas Tallqvist
Norrænu ráðherrarnir á sviði vinnumála hafa tjáð vilja sinn til nánara samstarfs við Evrópusambandið um þróun Evrópustoðar félagslegra réttinda.

„Evrópustoð félagslegra réttinda er þýðingarmikil fyrir öll aðildarlönd ESB og EES. Traustur vinnumarkaður og velferðarkerfi skipta þar miklu. Góðar vinnuaðstæður eru afar mikilvægar fyrir íbúana og nauðsynlegar ef löndum Evrópu á að auðnast að skapa sjálfbæran vettvang þar sem atvinnulíf getur blómstrað.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu vinnumálaráðherranna, sem lögð var fram á fundi þeirra í Helsinki 29. nóvember.

Ráðherrarnir telja það mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að Evrópa komi saman og ræði hvernig stjórnmálamenn geti aukið skilvirkni í aðgerðum sem snúa að því að skapa störf og efla félagslega þróun í aðildarlöndunum. Ennfremur benda þeir á mikilvægi þess að finna lausnir við framtíðarþörfum íbúanna og þjóðanna. 

 „Verkefni vinnumálaráðherranna á vettvangi ESB er dæmi um virkari aðkomu landanna að málum þar sem forsendur þeirra og hagsmunir fara saman. Ég er sannfærður um að það muni stuðla að auknum skilningi á lausnum sem koma sér vel, bæði fyrir Norðurlönd og í víðara, evrópsku samhengi,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten.

Framkvæmdastjórinn lagði ennfremur áherslu á það að reynsla Norðurlandaþjóða sýndi að unnt væri að sameina velferðarþróun hagvexti og atvinnusköpun. Sterk Evrópa ætti að byggja á samspili hagvaxtar, samkeppnishæfni og samstöðu.

Evrópustoð félagslegra réttinda verður einnig að fela í sér virðingu fyrir mismunandi vinnumarkaðslíkönum landanna, félagslegum lausnum og pólitísku mati. Það er afar þýðingarmikið fyrir norrænan vinnumarkað. Standa verður vörð um sjálfstæði allra aðila og rétt þeirra til að semja um laun og önnur starfskjör. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gegnt lykilstöðu fyrir jákvæða þróun á vinnumarkaði og félagslegar lausnir í norrænu löndunum.

Nú þarf að standa vörð um sameiginlega norræna hagsmuni með markvissari og virkari hætti, bæði í skoðanaskiptum aðila vinnumarkaðarins og á vettvangi löggjafarferla ESB.

Poul Nielson, fyrrum ráðherra í Danmörku og framkvæmdastjóri hjá ESB, hefur unnið úttekt á norrænum vinnumarkaði að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann hefur mótað fjórtán ráðleggingar til norrænu landanna, sem lagðar voru fram á fundi ráðherranna. Nielson telur að norræna líkanið hafi mikið fram að færa til stefnumótunar á vettvangi ESB, en er nokkuð uggandi yfir þeim áskorunum sem ESB hefur í för með sér fyrir norræna líkanið. Nielson leggur til að norrænu löndin takist á við slíkan þrýsting með sameiginlegu átaki, sem miði að því að auka skilning og virðingu fyrir norræna líkaninu.

„Nú þarf að standa vörð um sameiginlega norræna hagsmuni með markvissari og virkari hætti, bæði í skoðanaskiptum aðila vinnumarkaðarins og á vettvangi löggjafarferla ESB.“

Yfirlýsing vinnumálaráðherranna:

Vefvarp