Viðmið fyrir sjálfbæra námuvinnslu á Norðurlöndum

08.04.14 | Fréttir
Media briefing before the Theme Session
Photographer
Audunn Nielsson/norden.org
Sameiginleg sjálfbærniviðmið, þar sem tekið er tillit til umhverfis- og samfélagsþátta, eru forsenda námuvinnslu á Norðurlöndum. Þetta er álit Norðurlandaráðs, en ákvörðun var tekin um málið á þemaþingi ráðsins á Akureyri.

„Í mörgum löndum er litið á öruggt aðgengi að mikilvægum málmum og jarðefnum sem skilyrði fyrir hagvexti og atvinnusköpun. Samkeppnin færist í aukana, og ágangur á auðlindir náttúrunnar skapar ný ágreiningsefni. Auk þess skapast deilur við frumbyggja, landeigendur og aðra aðila, ekki síst Í ferðaþjónustu. Þá verða oft árekstrar á milli hagsmuna umhverfisins og starfsemi námuvinnslufyrirtækja. Þess vegna þurfum við á þessum sjálfbærniviðmiðum að halda,“ segir Arto Pirttilahti (C, flokkahópi miðjumanna), fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs.

Flokkahópur vinstri sósíalista og grænna og flokkahópur hægrimanna studdu tillöguna í umræðum þingsins.

„Sjálfbærniviðmiðin geta eflt samkeppnisstöðu okkar. Námuvinnsla á Norðurlöndum er háþróuð og viðmiðin geta stuðlað að því að Norðurlöndin yrðu öðrum þjóðum heims til fyrirmyndar,“ sagði Heidi Nordby Lunde (H, fulltrúi Noregs í flokkahópi hægrimanna).

Grundvöllur alþjóðlegra samninga

Í þeim tilmælum, sem nú er beint til Norrænu ráðherranefndarinnar, er lagt til að sjálfbærniviðmiðin verði sett fram sem stefnuyfirlýsing, og að þau taki mið af gildandi reglum og reynslu sem fengist hefur á þessu sviði á Norðurlöndum. Markmiðið er að viðmiðin megi leggja til grundvallar þegar reglugerðir verða settar hjá ESB og á alþjóðlegum vettvangi.

„Vitanlega er það heldur ekki svo, hvorki í löndunum eða á alþjóðavettvangi, að námarekstur lúti ekki neinum reglugerðum. Þó gætu reglur, sem aðilum námuiðnaðarins gæfist tækifæri til að taka þátt í að móta, haft sitt að segja til að bæta misjafnt orðspor þessarar atvinnugreinar,“ segir Arto Pirttilahti.

Auk náttúru- og vatnsverndar skulu sjálfbærniviðmiðin taka tillit til réttinda frumbyggja, íbúanna og atvinnurekstrar á hverjum stað og ennfremur öryggis og réttinda námuverkafólks. Þá skal þar kveðið á um viðeigandi meðferð úrgangsefna og bótarétt vegna slysa.

Hafið samband:

Arto Pirttilahti
Sími: +45 +0500 114 434
Netfang: arto.pirttilahti@riksdagen.fi

Heidi Orava
Sími: +45 21 71 71 48
Netfang: heor@norden.org

Contact information