Vilja efla réttindi ungra fylgdarlausra hælisleitenda

01.11.16 | Fréttir
Teenagere i Stockholm
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Velferðarnefnd Norðurlandaráðs kynnir í dag tillögur um níu aðgerðir sem miða að því efla réttindi ungra fylgdarlausra hælisleitenda. Nefndin vill meðal annars að afgreiðslutími hælisbeiðna verði styttur, að óháð aldursmat fari fram og nýjar starfsaðferðir verði innleiddar til að tryggja öryggi við brottvísun.

„Við eigum mannúðararfleifð- og hefð á Norðurlöndum sem mikilsvert er að halda í,  sérstaklega þegar erfiðleikar steðja að á alþjóðavettvangi. Við þurfum að sjá einstaklingana þegar aðrir sjá flóttamannastraum. Við þurfum að standa vörð um réttaröryggið þegar aðrir kjósa skjótar lausnir. Við þurfum að hugsa til lengri tíma þegar aðrir loka landamærum,“ segir Bent Morten Wenstøb, talsmaður nefndarinnar og þingmaður Hægriflokksins í Noregi. 

Undanfarið ár hefur hefur nefndin kynnt sér vel þau úrlausnarefni sem tengjast móttöku ungra hælisleitenda á Norðurlöndum. Nefndin hefur meðal annars heimsótt móttökubúðir hælisleitenda og rætt við sérfræðinga og yfirvöld sem fást við þessi mál. Þingmennirnir hafa jafnframt hitt ungmenni sem hafa upplifað það að flýja til Norðurlanda eins síns liðs.

Við þurfum að sjá einstaklingana þegar aðrir sjá flóttamannastraum. 

Virða þarf réttindi barna

 Á Norðurlandaráðsþingi, sem hófst í Kaupmannahöfn 1. nóvember, lagði nefndin fram tillögu með ýmsum aðgerðum sem ætlað er að bæta aðstöðu ungmennanna og efla réttindi þeirra með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Þrátt fyrir að meðlimir nefndarinnar komi úr mismunandi áttum pólitískt erum við öll sammála um að allir þeir sem eru undir átján ára aldri og dveljast á Norðurlöndum eigi kröfu á að njóta góðrar og öruggrar barnæsku og að réttindi barna sem lýst er í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi að virða í öllum norrænu löndunum."

Nefndartillaga um unga fylgdarlausa hælisleitendur

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs telur að ungir fylgdarlausir hælisleitendur séu viðkvæmur hópur sem hafi sérstaka þörf fyrir umönnun og öryggi og leggur þess vegna til að við ríkisstjórnir Norðurlanda:

 að afgreiðslutími umsókna ungra hælisleitenda verði styttur
 
að meðan á biðtímanum stendur fái börnin kennslu, möguleika á að stunda tómstundastarf og annað það sem hentar hverju barni
 
að skráning fylgdarlausra hælisleitenda verði samhæfð
 
að ungum fylgdarlausum hælisleitendum verði ekki vísað úr landi nema móttakan sé örugg og í höndum fjölskyldumeðlima eða annars netverks fært er um að taka á móti þeim og vill það
 
að lögð verði áhersla á að hvert barn fái fljótt tungumálaaðstoð og að sú aðstoð verði viðvarandi í því skyni að auðvelda aðlögunina
 
að unnið verði að því að innleiða betri og traustari aðferðir við við aldursmat og að matið verði i höndum óháðs fagsfólk sem hafi þá hæfni og þekkingu á sviði þjóðernisuppruna og menningar sem til þarf 
að frjáls félagasamtök verði fengin til að koma að umönnun ungra fylgdarlausra hælisleitenda 
 
 

 að tryggja að börnin hafi ókeypis aðgang að heilbrigðiseftirliti, læknisfræðilegri og sálfræðilegri aðstoð og fái lögfræðilegar leiðbeiningar um réttindi sín.

 
 að þegar börn í leit að hæli hverfa verði það rannsakað með sama hætti og önnur mannshvörf
 
Paula Bielder, nefndarmaður og þingmaður Svíþjóðardemókrata, gerir eftirfarandi fyrirvara við tillöguna:

Aldursmat þarf að fara fram eins fljótt og hægt er og ofannefndar ráðstafanir á fyrst að gera eftir að læknisskoðun hefur sýnt fram á viðkomandi sé undir átján ára aldri og þar með barn.

Norræna velferðarnefndin

Nefndin vinnur að því að efla og þróa norræna velferðarlíkanið. Markmið nefndarinnar er að móta sjálfbærar lausnir á þeim úrlausnarefnum sem heilbrigðis- og félagsmálageirinn stendur frammi fyrir. Almennt öryggi og réttaröryggi einstaklinga eru grundvallarþættir velferðar og nauðsynlegir til þess að Norðurlandabúar – það er að segja þeir sem dvelja á Norðurlöndum — upplifi frelsi og lífsgæði. Innflytjendamál og aðlögun eru þess vegna á verksviði nefndarinnar.